Einstaklingur sem búsettur er í Vestmannaeyjum hefur greinst með COVID-19 og er nú kominn í einangrun. Viðkomandi var í sóttkví við greiningu en alls eru 75 einstaklingar nú í sóttkví í Vestmannaeyjum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá aðgerðastjórn. Fram kom í gær að 48 væru þar í sóttkví eftir að gestkomandi einstaklingar sem voru í Eyjum um verslunarmannahelgina greindust með COVID-19.

Næsta mánudag mun Íslensk erfðagreining standa fyrir skimum til að kanna útbreiðslu veirunnar í Vestmannaeyjum. Í tilkynningu frá aðgerðastjórn eru þeir sem hafa fengið boð hvattir til að skrá sig og taka þátt í skimuninni. Þeir sem ekki skrá sig missa sitt pláss. Aðilar með flensueinkenni skulu ekki mæta í skimunina.