Einstaklingur búsettur í Vestmannaeyjum hefur greinst með COVID-19 og er nú í einangrun. Níu aðilar eru í sóttkví í Vestmannaeyjum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá aðgerðastjórn almannavarna í Eyjum en áður höfðu engin ný smit greinst þar eftir 22. ágúst.

Aðgerðarstjórn biður íbúa að gæta vel að einstaklingsbundnum sóttvörnum og almennum smitvörnum. Þá hvetur aðgerðastjórn bæjarbúa til að sækja C-19 smitrakningarapp almannavarna.

Alvarlegt hópsmit átti sér stað í Vestmannaeyjum í vor og höfðu alls 105 greinst þar með COVID-19 í byrjun maí. Giltu þar lengi hertari takmarkanir en í öðrum landshlutum sökum þessa.