Kórónuveiran er komin aftur til Færeyja en í gær greindist einstaklingur með smit við landamæraskimun á flugvellinum í Vág­um.

Er þetta fyrsta smitið sem greinist í landinu frá því 22. apríl síðastliðinn.

Lars Møller, landlæknir í Færeyjum telur ekki að einstaklingurinn hafi smitað aðra.

Hann segir í samtali við Færeyska miðilinn Info að ekki sé hægt að gefa upp að svo stöddu hvort að einstaklingurinn sé Færeyingur eða erlendur ferðamaður.

Beðið er eftir niðurstöðum úr mótefnamælingu hvort smitið sé gamalt og þá ekki smitandi eða virkt smit.

Þegar niðurstöðurnar liggja fyrir fer smitrakning í gang, segir Møller.

Færeyingar lögðu ríka áherslu á skimanir þegar faraldurinn barst til landsins í mars en í lok maí höfðu tólf þúsund sýni verið tekin. Alls hafa 187 smitast þar í landi en enginn látist vegna veirunnar.