Um sex þúsund ný COVID-19 tilfelli greindust á Indlandi í gær sem er mesta daglega aukning þar í landi frá upphafi faraldursins. Greind tilfelli á Indlandi eru nú um 118 þúsund og hafa 3.853 manns látist af völdum veirunnar.

Meðal svæða sem faraldurinn hefur leikið hvað verst er fylkið Maharashtra og höfuðborg þess, Mumbai. Þar hafa yfir 35 þúsund greinst og hefur heilbrigðisráðherra Indlands sagt að sá fjöldi muni líklega fjórfaldast.

Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, hefur tvisvar framlengt lokunarráðstafanir sem gripið var til í upphafi mars og gilda þær nú til loka maímánaðar. Meðal þeirra er bann á farþegaflugi og lestarferðum til og frá landinu og takmarkanir á almenningssamgöngum. Þó hefur verið gerð undantekning til að fljúga með indverska ríkisborgara heim.

Ríkisstjórn Modi hefur sætt gagnrýni fyrir viðbrögð sín við faraldrinum. Modi tilkynnti fyrr í mánuðinum að ríkisstjórnin myndi verja andvirði 266 milljarða Bandaríkjadala í aðgerðir til að hleypa lífi aftur í efnahag landsins.

Meðal þeirra sem lokunaraðgerðirnar hafa bitnað hvað verst á er mikill fjöldi farandverkamanna sem sitja fastir í borgum Indlands eftir að hafa misst vinnuna í faraldrinum.

Margir farandverkamenn hafa neyðst til að aftur til heimaþorpa sinna, þar sem þeir komast ekki til vinnu vegna skorts á almenningssamgöngum, og hafa sumir lagt af stað fótgangandi. Tugir manna hafa dáið á erfiðu ferðalagi til heimahaga sinna.

Auk kórónuveirunnar hafa Indverjar einnig þurft að glíma við náttúruhamfarir á síðustu dögum. Fellibylurinn Amphan skall á Indlandi og Bangladess í vikunni og olli miklu manntjóni. Tæplega hundrað hafa látist af völdum fellibylsins og þúsundir misst heimili sín.