Víðir Reynis­son, yfir­lög­reglu­þjónn hjá al­manna­varna­deild lög­reglu­stjóra, greinir frá því að fleiri í nær­um­hverfi hans hafi greinst með CO­VID-19 en Víðir greindist með kóróna­veiruna síðast­liðinn mið­viku­dag á­samt eigin­konu sinni.

Í færslu á Face­book fer Víðir yfir stöðu mála hjá sér og fjöl­skyldu sinni. Hann hafi greinst á­samt konunni sinni og í fyrstu hafi ein­kennin verið væg en gær­dagurinn hafi síðan verið erfiður. Dagurinn í dag hafi aftur á móti verið skárri.

Liggur ekki fyrir hvaðan smitið kom

„Frá því far­aldurinn kom til landsins höfum við hjónin þrengt veru­lega þann hóp sem við höfum um­gengist,“ segir Víðir í færslunni og bætir við að það hafi verið gert til að lág­marka á­hættuna á smiti. Ljóst hafi þó verið skömmu síðar að fólk í nánasta um­hverfi þeirra hafi verið út­sett fyrir veirunni.

Á mánu­deginum hafi eigin­kona Víðis farið að finna fyrir ein­kennum og var stað­fest síðar sama dag að hún væri smituð en í ljós kom að hún væri tals­vert smitandi. Ekki liggur fyrir hvernig hún smitaðist.

Þann tíma hafi þau mest megnis verið heima en fengið vina­fólk og fjöl­skyldu í heim­sókn. „Í öllum til­fellum var passað upp á fjar­lægðir á milli okkar og gesta og reyndum að forðast sam­eigin­lega snerti­fleti,“ segir Víðir en smitrakning leiddi í ljós að alls væru tólf út­settir fyrir smiti.

Fimm aðrir úr hópnum smitast

„Í dag er staðan þannig að auk okkar hjóna hafa fimm aðrir úr hópnum greinst með stað­festa Co­vid-19 sýkingu. Vina­fólk okkar sem búa hjá okkur voru aug­ljós­lega mikið út­sett. Smit annarra sýnir svo ekki sé um villst hversu smitandi þessi veira er,“ segir Víðir og bætir við að lík­lega hafi ekki verið passað nægi­lega vel upp á snerti­fleti.

„Sjálfur hef ég verið manna dug­legastur við að hvetja alla til að passa eigin sótt­varnir og því þung­bært að þetta sé staðan. Við getum ekki annað en vonað að við öll, eins og allir þeir fjöl­mörgu sem eru að berjast við þennan ó­vætt komum heil út úr þessu,“ segir Víðir að lokum.

Færslu Víðis í heild sinni má lesa hér fyrir neðan.

Góðan og blessaðan daginn. Nú er ég á fjórða degi veikinda vegna Covid-19. Einkennin voru í fyrstu væg en í gær vorum...

Posted by Víðir Reynisson on Laugardagur, 28. nóvember 2020