Þór­ólfur Guðna­son sótt­varna­læknir segir at­hyglis­vert að sumir þeirra sem greinast á landa­mærunum hafi skilað inn nei­kvæðu PCR-vott­orði fyrir komuna en krafa er nú gerð um bæði nei­kvætt PCR-próf og tvö­falda skimun við komuna til landsins. Nú­verandi fyrir­komu­lag er í gildi til 1. maí.

„Þetta er akkúrat sú reynsla og þekking sem að við erum að afla okkur, hversu vel getum við treyst á þessi nei­kvæðu PCR-vott­orð sem fólk er að koma með, og það er náttúru­lega á­huga­vert ef fólk er að koma með nei­kvætt PCR-vott­orð en er samt að greinast hér á landa­mærunum,“ segir Þór­ólfur í sam­tali við Frétta­blaðið.

Halda áfram að safna upplýsingum

Að­spurður um hvort það séu dæmi um að slíkt gerist er­lendis segir Þór­ólfur að það sé ekki hægt að segja til um það þar sem fyrir­komu­lagið hér á landi er mikið strangara en annars staðar. „Þannig að það er ekki mikið á því að græða, það er enginn með svona ná­kvæma skimun sem hefur staðið svona lengi eins og við erum með.“

„Þetta fyrir­komu­lag var ekki hvað síst sett á til þess að svara þessum spurningum, um hversu vel við getum treyst á nei­kvæð PCR-vott­orð sem fólk kemur með er­lendis frá og við höldum bara á­fram að safna þeim upp­lýsingum og leggja mat á það,“ segir Þór­ólfur.

Smit enn að greinast

Líkt og áður segir er nú­verandi fyrir­komu­lag í gildi til 1. maí en að sögn Þór­ólfs er ekki enn farið að ræða hvað tekur við og er ekki gert ráð fyrir breytingum fyrir þann tíma.

Ríkis­stjórnin greindi þó frá því í janúar að frá 1. maí yrðu tekin var­færin skref til af­léttingar þar sem til­lit yrði tekið til stöðu far­aldursins er­lendis. Samkvæmt þeim tilslökunum myndu farþegar frá löndum þar sem smit eru fá sleppa við sóttkví og síðari skimun ef þeir skila inn neikvæðu PCR-prófi.

Þrátt fyrir að fá sem engin smit séu nú að greinast innan­lands eru enn að greinast smit á landa­mærunum. Fimm manns greindust með kóróna­veiruna við landa­mæra­skimun í gær en af þeim reyndust fjórir vera með virkt smit. „Þetta náttúru­lega bara sveiflast milli daga en það eru fyrst og fremst þessi virku smit sem við erum að fylgjast með.“