Sjúklingur á Vogi greindist seinni partinn í dag með COVID-19. Nokkrir sjúklingar og starfsmenn þurfa að fara í sóttkví.

Viðeigandi ráðstafnir í samvinnu við sóttvarnaryfirvöld eru í gangi að því er fram kemur í tilkynningu frá Einari Hermannssyni, formanni SÁÁ.

Sjúklingar eru skimaður áður en þeir leggjast inn á Vog og segir Einar að mjög góðar sóttvarnir séu á spítalanum.

„Það er ljóst að nokkrir starfsmenn þurfa að fara í sóttkví, endanlegur fjöldi ekki ljós. Eftirfylgni og skimum verður væntanlega framkvæmd á öllum sem mögulega voru í snertingu við viðkomandi,“ segir Einar í samtali við Fréttablaðið.

Búið er að loka þeirri álmu þar sem viðkomandi einstaklingur dvaldi og hafa nokkrir sjúklingar verið sendir heim í sóttkví.

Einar segir stöðuna mjög erfiða fyrir sjúklinga í meðferð.

„Ég geri ráð fyrir að einhverjir sjúklingar kjósi að fara heim til sín og það verði fáir sjúklingar inn á Vogi um helgina.“