Kórónuveirusmit kom upp hjá starfsmanni veitingastaðarins Gló í dag. Á Facebook síðu veitingastaðarins kemur fram að starfsmaður sé kominn í sóttkví og staðnum sé lokað á meðan og hann verði sótthreinsaður.

„Því miður kom upp staðfest COVID-19 hjá einum starfsmanni Gló í gær og þurfum við því að loka staðnum á meðan starfsmenn okkar eru í sóttkví og staðurinn verður sótthreinsaður. Smitrakningarteymið hefur staðfest við okkur að viðskiptavinir okkar þurfi ekki að hafa áhyggjur. Við þökkum ykkur fyrir skilninginn og hlökkum til að taka vel á móti ykkur þegar við opnum aftur."

Einnig greindist smit á Veitingastaðnum Jómfrúnni. Mbl.is greindi frá að starfsmaður hafi seinast verið í vinnu á mánudag og að 24 starfsmenn hafi verið sendir í skimun. Enn fremur var sagt frá að engir gestir muni þurfa að sæta skimun eða sóttkví vegna smitsins.

Síðustu tvo daga hafa sautján einstaklingar greinst innanlands og reyndust níu af þeim utan sóttkvíar við greiningu. Smitin síðustu daga hafa borist til landsins frá landamærum með komufarþegum og virðast smitin vera að dreifast með einstaklingum sem eiga tengslanet hérlendis.

Þórólfur undirbýr minnisblað til ráðherra. þetta kom fram í samtali við Fréttablaðið fyrr í dag. 

„Við þurfum að koma með ein­hverjar til­lögur, reyna að að­eins hafa hemil á þessu og hafa hemil á að veiran komist inn í landið,“ segir Þór­ólfur og vísar til þess að helst sé verið að skoða að­gerðir á landa­mærunum. „Það er aðal­lega það sem við þurfum, að mínu mati, að leggja á­herslu á núna.“