Starfs­maður Sam­göngu­stofu greindist með kórónu­veiruna í gær. Þetta stað­festir Þór­hildur Elín Elínar­dóttir, sam­skipta­stjóri stofnunarinnar, í sam­tali við Frétta­blaðið. Hún segir að þeir starfs­menn sem hafi verið í ná­vígi við við­komandi hafi verið beðnir um að mæta ekki til vinnu í dag á meðan smitrakningar­teymið rekur smitið.

„Þetta er enn þá í úr­vinnslu. Þetta vara bara stað­fest í gær­kvöldi,“ segir Þór­hildur Elín. „Allt starfs­fólk sem hafði mögu­lega ein­hverja ná­lægð við við­komandi var beðið að vera heima í dag.“ Hún segir að koma verði í ljós hvort ein­hverjir þeirra verði sendir í eigin­lega sótt­kví í tvær vikur en smitrakningar­teymið mun hafa sam­band við þá sem þurfa að gera það.

Starf­semi Sam­göngu­stofu mun halda á­fram með ó­breyttum hætti. „Ljósi punkturinn í þessu er kannski sá að bæði eru margir í sumar­fríi og við brugðumst við strax í síðustu viku þegar til­mælin komu frá sótt­varna­lækni um auknar sótt­varnir. Þá gátum við endur­vakið skipu­lagið okkar frá því í vor sem var mjög skipu­lagt,“ segir Þórhildur Elín.

Þannig voru hópar starfs­manna að­greindir og því var sá sem greindist með veiruna í gær ekki í sam­skiptum við starfs­menn utan síns hóps.