Fjögurra manna er­lend fjöl­skylda, sem er í heim­sókn á landinu, er nú í ein­angrun í sótt­varna­húsinu á Akur­eyri. Einn ­með­limur fjölskyldunnar greindist með virkt kórónu­veiru­smit í gær­kvöldi. Sá fékk nei­kvætt úr sýna­töku sinni við landa­mærin en greindist í annarri sýna­töku.

Þetta stað­festir Gylfi Þór Þor­steins­son, um­sjónar­maður far­sótta­húsa, við Frétta­blaðið. „Við erum með fjóra ferða­menn í húsinu á Akur­eyri. Það kom í ljós í seinni sýna­töku hjá einum af fjórum fjöl­skyldu­með­limum að hann var kominn með Co­vid-19,“ segir Gylfi.

Sá sem greindist með smitið mun vera í ein­angrun í að minnsta kosti tvær vikur. Að sögn Gylfa Þórs er hinum einnig haldið í ein­angrun vegna þess í hve miklu ná­vígi þau hafa verið við hinn smitaða. Þeim verður haldið í ein­angrun í ein­hverja daga og tekin úr þeim sýni.

Hann hafði ekki frekari upp­lýsingar um málið að svo stöddu og vísaði á al­manna­varnir. Í sam­tali við Frétta­blaðið sagðist sam­skipta­stjóri al­manna­varna eins og er ekki hafa upp­lýsingar um ein­staka smit sem greindust í gær.

Því er ó­víst hvers vegna við­komandi fór í aðra sýna­töku en hingað til hefur annað sýni eftir landa­mæra­skimun að­eins verið tekið hjá Ís­lendingum sem koma til landsins og viðhafa heimkomusmitgát. Eftir því sem Frétta­blaðið kemst næst er enn verið að vinna úr upp­lýsingum um smitið.

Ellefu innan­lands­smit greindust á landinu í gær en eins og Frétta­blaðið greindi frá í dag voru að­eins tveir þeirra sem greindust í sótt­kví við greiningu. Hinir voru allir utan sótt­kvíar. Þá greindist einn til við­bótar við landa­mærin og er beðið eftir niður­stöðu mót­efna­mælingar hjá öðrum.