Smá­stirnið 1994 PC1 mun fljúga fram hjá jörðu í kvöld en um er að ræða kíló­metra­langt stirni sem hefur verið skil­greint af NASA sem „hugsan­lega hættu­legt“. Sæ­var Helgi Braga­son, vísinda­miðlari, ræddi við Elínu Hirst á Frétta­vaktinni á Hring­braut um smá­stirnið, sem hann segir því miður vera að­eins of lítið til að sjást með berum augum.

„En ef fólk ætti sjón­auka og það sæist í heiðan himin þá væri hægt að finna það og sjá það svona líða hægt og ró­lega eins og gervi­tungl eða flug­vél út úr sjón­sviðinu á smá tíma,“ segir Sæ­var Helgi.

Að sögn Sæ­vars, sem stundum er kallaður því við­eig­andi nafni Stjörnu-Sæ­var, eru sem betur fer fá smá­stirni sem hætta sér mjög nærri jörðinni.

„Það reyndar kemur alveg fyrir og hefur komið fyrir að smá­stirni hafi hætt sér milli jarðar og tunglsins og næstum því bara í svipaðri hæð og þessi fjar­skipta­gervi­tungl eru. Það hefur sem sagt komið fyrir en yfir­leitt eru þau frekar smá.“

Að­spurður um hvað sé frétt­næmast við þetta til­tekna smá­stirni segir Sæ­var Helgi það vera stærðina á því og þá stað­reynd hversu ná­lægt það kemst jörðinni.

„Þetta er smá­stirni sem er svona á­líka stórt og Esjan, að­eins stærra, og það þykir bara býsna stórt á þessum mæli­kvarða og það fer hárs­breidd fram hjá okkur, innan gæsa­lappa. Því að hárs­breidd í þessu til­viki er næstum því 2 milljónir kíló­metra eða fimm­föld vega­lengdin á milli jarðar og tunglsins en á stjarn­fræði­legan mæli­kvarða þá er það hárs­breidd fram hjá,“ segir hann.

Rann­saka hvernig bægja má smá­stirnum frá jörðu

Að sögn Sæ­vars veitir ná­lægð smá­stirnisins vísinda­mönnum ein­stakt tæki­færi til að rann­saka það sem er meðal annars gert með því að senda út­varps­bylgjur að því til að kanna sam­setningu og lögun þess. Þetta er meðal annars gert í þeim til­gangi að fyrir­byggja hættuna sem stafað gæti af smá­stirnum er stefna beint á jörðina.

„Þegar kemur að því að svona smá­stirni er með jörðina í skot­línunni og gæti rekist á okkur þá viljum við vita hvað við þurfum að gera til þess að bægja hættunni frá, svo ekki fari fyrir okkur eins og risa­eðlunum forðum daga,“ segir Sæ­var Helgi.

Engin hætta er þó á því að fyrir okkur fari eins og risa­eðlunum forðum daga enda var smá­stirnið sem rakst á jörðina fyrir um 66 milljónum ára og þurrkaði þær út allt að fimm­tán sinnum stærra en 1994 PC1 eða um tvö­falt stærra en E­verest­fjall.

„Það skall á jörðinni þar sem var grunn­sævi þá, en þar sem er Mexíkó­flói nú, Júkatanskagi í Mexíkó. Þegar svona at­burður á sér stað, þegar á­rekstur svona stórs smá­stirnis verður að þá náttúr­lega bara þurrkast stór hluti lífs á jörðinni út, vegna þeirra um­hverfis­breytinga sem verða í kjöl­far á­rekstursins. Það er að segja við á­reksturinn þyrlast upp svo mikið ryk að það skyggir á sólina svo árum skiptir og þá kólnar hita­stig á jörðinni hressi­lega, til skamms tíma, og fæðu­keðjan hrynur.“

Vitað um allt að 30.000 sam­bæri­leg smá­stirni

Til allrar hamingju stefnir smá­stirnið 1994 PC1 ekki á jörðina en ef svo ó­heppi­lega vildi til að það myndi rekast á okkur gæti slíkt haft tölu­verð stað­bundin á­hrif, að sögn Sæ­vars Helga.

„Segjum bara að hann myndi rekast á Reykja­vík, þá yrði til gígur sem myndi vera svona sirka tuttugu kíló­metrar í þver­mál, þannig Reykja­vík myndi gjör­sam­lega jafnast við jörðu. Og það er alveg sama hvar þú ert á Ís­landi þú myndir finna fyrir á­hrifunum, ekki bara hér heldur líka í Græn­landi, Eng­landi og bara norður­hluta heimsins. Þetta er sem sagt ekki svona at­burður sem myndi hafa hnatt­rænar af­leiðingar í för með sér en mjög slæmar stað­bundnar af­leiðingar,“ segir Sæ­var Helgi.

Smá­stirnið heitir nokkuð ó­þjálu nafni, 1994 PC1, sem kemur til vegna þess að það upp­götvaðist í ágúst­mánuði árið 1994. Sæ­var Helgi segir það vera venjuna að nefna smá­stirni á þennan hátt vegna þess gífur­lega fjölda slíkra stirna sem finnast í víð­áttum himin­geimsins á ári hverju.

„Af því við finnum svo mörg. Við þekkjum til dæmis í dag næstum því 30.000 svona smá­stirni sem eru jarð­nándarsmá­stirni, það er að segja komast ná­lægt jörðinni og gætu mögu­lega rekist á okkur ein­hvern tíma í fram­tíðinni. Aftur, ekkert með jörðina í skot­línunni efir því sem við best vitum, en þau eru svo mörg að það er ekkert hægt að gefa þeim öllum bara hefð­bundið nafn eins og Elín eða Mozart eða hvað það er,“ segir Sæ­var Helgi.

Don‘t Look Up mjög vönduð vísinda­lega

Net­flix-myndin Don‘t Look Up með Leonar­do DiCaprio og Jenni­fer Lawrence vakti at­hygli margra á smá­stirnum og hala­stjörnum þegar hún var frum­sýnd um jólin. Spurður um hvernig honum hefði þótt myndin segir Sæ­var Helgi:

„Í fyrsta lagi þá fannst mér náttúr­lega stjarn­vísindin í myndinni mjög góð og það er skiljan­legt vegna þess að þau fengu stjarn­eðlis­fræðing til að að­stoða sig við svona að vísindin væru al­menni­leg. Í þessu til­viki er það reyndar hala­stjarna, ekki smá­stirni, sem rekst á okkur og hún er býsna stór. Svo stór að hún veldur hnatt­rænum á­hrifum ef hún myndi rekast á jörðina.“

Sem betur fer er smá­stirnið 1994 PC1 langt frá því að vera jafn ógn­væn­legt og hala­stjarnan í Don‘t Look Up en á­huga­samir geta þó fylgst með ferða­lagi þess í beinni út­sendingu á Youtu­be á vegum The Virtu­al Telescope Project. Út­sendingin hefst klukkan 20:00 að ís­lenskum tíma og búist er við því að smá­stirnið fljúgi fram hjá jörðu klukkan 21:51.