Smá­stirni á stærð við flutninga­bíl mun svífa fram hjá jörðinni í kvöld í einungis 3.500 kíló­metra fjar­lægð. AP-frétta­veitan greinir frá þessu.

Banda­ríska geim­ferða­stofnunin, NASA, segir að engar líkur séu á því að smá­stirnið lendi í á­rekstri við jörðina þó ekki megi miklu muna í stjarn­fræði­legu sam­hengi.

Smá­stirnið upp­götvaðist ný­lega og mun það svífa fram hjá syðsta oddi Suður-Ameríku og verða þá í einungis 3.500 kíló­metra fjar­lægð frá jörðu.

Vísinda­menn segja að þó að smá­stirnið hefði tekið stefnu á jörðina hefðu af­leiðingarnar senni­lega orðið litlar og smá­stirnið brunnið að mestu upp til agna. Mögu­lega hefðu ein­hverjar leyfar í formi loft­steina komist í gegnum loft­hjúp jarðar.