Smástirni á stærð við flutningabíl mun svífa fram hjá jörðinni í kvöld í einungis 3.500 kílómetra fjarlægð. AP-fréttaveitan greinir frá þessu.
Bandaríska geimferðastofnunin, NASA, segir að engar líkur séu á því að smástirnið lendi í árekstri við jörðina þó ekki megi miklu muna í stjarnfræðilegu samhengi.
Smástirnið uppgötvaðist nýlega og mun það svífa fram hjá syðsta oddi Suður-Ameríku og verða þá í einungis 3.500 kílómetra fjarlægð frá jörðu.
Vísindamenn segja að þó að smástirnið hefði tekið stefnu á jörðina hefðu afleiðingarnar sennilega orðið litlar og smástirnið brunnið að mestu upp til agna. Mögulega hefðu einhverjar leyfar í formi loftsteina komist í gegnum lofthjúp jarðar.