Það er ekki ofsögum sagt að mikil umræða fer nú fram um heilbrigðiskerfið og vanda þess. Undirritaður hefur tekið þátt í henni og einnig hlustað af athygli. Svo virðist sem okkur gangi illa að ná samhljómi um hvað eigi að gera og hvernig. Það er skiljanlegt að heilbrigðisstarfsmenn láti í sér heyra enda brennur málefnið á þeim sérstaklega og ekki síst sjúklingum þeirra. Pólitíkin er í vanda stödd og verulegt ákall um aukið fé, hærri laun og jöfnun í útgjöldum hins opinbera til heilbrigðisþjónustu samanborið við önnur lönd í kringum okkur sem myndi vafalaust hafa áhrif. Erfitt er fyrir þá sem standa utan við hringiðuna að henda reiður á því hver er besta lausnin. Öll erum við sammála um að standa vörð um það sem reyndar er enn í dag eitt besta heilbrigðiskerfi í heimi þrátt fyrir allt. Það er hins vegar fyrst og fremst þeim fjölmörgu stéttum að þakka sem starfa í því, aðstandendum og góðgerðarfélögum víðs vegar um landið.

Hvergi í hinum vestræna heimi stólar kerfið líklega jafn mikið á gjafafé og hér á Íslandi. Í landi sem er jafn auðugt og hefur ekki herafla ætti að vera hægt að gera betur eins og bent hefur verið á. Það er svo veruleg ábyrgð sem fylgir því að reka allar þær einingar sem eru innan kerfisins, fá þær til samstarfs og að fylgja því eftir að fé það sem sett er til rekstrar nýtist sem best. Sá vandi sem birtist í skorti á starfsfólki, sérstaklega hjúkrunarfræðingum og í aðhlynningu, ýtir undir álag og vítahring þess sem skapar aukna fjarveru frá vinnu. Sá spírall verður illa stöðvaður nema með því að ná að draga úr álagi með annaðhvort verulega breyttu verklagi eða aukinni mönnun og stuðningi við þær einingar sem bera hita og þunga heilbrigðiskerfisins, nefnilega Landspítala, heilsugæslu og hjúkrunar- og dvalarheimili.

Margháttaðar aðgerðir hafa þegar skilað einhverjum árangri en þær koma of seint og virka ekki nægjanlega hratt til að draga úr ástandinu. Þetta er vissulega flókið mengi og það þarf að skrúfa á mörgum stöðum til að beina flæði sjúklinga í réttan farveg. Heilbrigðisstarfsfólk hefur dregið andann djúpt, staðið sína plikt og reynt eftir fremsta megni að komast hjá atvikum og mistökum á undanförnum árum, en þróttur þeirra og vilji er að þverra og fleiri og fleiri veikjast sökum álags, aðrir færa sig til í starfi eða breyta um starfsvettvang.

Það er öllum ljóst og hefur verið lengi að aldurssamsetning þjóðarinnar, lífsstílssjúkdómar auk mönnunarvanda eru stærstu áskoranir okkar nú og til framtíðar. Forvarnir og lýðheilsa njóta ekki nægjanlegrar athygli þar sem verkefnið er ærið neðar í ánni við meðhöndlun sjúkdóma. Fjármagn í þann málaflokk er of lítið eins og víða annars staðar, því miður. Það að viðhalda getu einstaklinga hlýtur að vera forgangsmál. Ástandið hefur verið fyrirsjáanlegt um nokkuð langt skeið og á enn eftir að versna ef við ætlum að vinna í smáskammtalækningum. Það þarf lausnir sem grípa, eru sveigjanlegar og geta aðlagast hverju sinni. Verkefnið er ærið og eru ráðamenn ekki öfundsverðir. Það er í mörg horn að líta og munu alltaf einhverjir sjá meinbugi á því sem ákveðið verður.

Við þurfum að nýta sérhæfingu mannaflans betur, sumir hafa talað fyrir því að taka upp þegnskylduvinnu yngra fólks til dæmis í aðhlynningu líkt og þekkist víða í kringum okkur í gegnum tíðina, héraðsskylda lækna hefur einnig verið nefnd til að manna landsbyggðina. Afleysingaþjónustu hjúkrunarfræðinga hvort heldur er á vegum ríkis eða einkaaðila mætti skoða að nýju með ákveðnum formerkjum. Aðrir vilja nýta starfskrafta lengur og gefa þeim sem þess óska tækifæri til að starfa áfram meðan heilsan leyfir. Virkja þá möguleika sem felast í fjölbreyttum rekstrarformum enn frekar en nú er gert. Skoða breytt verklag við vaktþjónustu á höfuðborgarsvæði með heimilis-, smáslysa- og lyflæknisnálgun og létta þannig álagi á sjúkrahús. Jafnvel bjóða upp á skammtímalegur og vinna að endurskipulagningu göngudeildarþjónustu innan sem utan spítala. Tækniþróun er ör og verður stór hluti af lausn mála, sérstaklega í fjarheilbrigðisþjónustu og heimaþjónustu. Breyta þarf fyrirkomulagi heimahjúkrunar og tengja sterkar við heilsugæslur en nú er. Nauðsynlegt er að tryggja sömuleiðis eðlilegan vöxt og uppbyggingu hjúkrunar- og endurhæfingarúrræða fyrir aldraða.

Allt þetta og margt fleira er mögulegt og svo auðvitað til viðbótar að horfa fram á veginn og tryggja að við höfum úrræði, pláss og mannskap vegna þess að verkefnið vex með hverju ári og er ekki að fara neitt, það gera hins vegar starfsmenn ef á þá er ekki hlustað og þeir hafðir með í ráðum um framtíð þeirra og skjólstæðinga þeirra.