Rekstur Mercedes Benz, sem er í eigu Daimler, gengur ágætlega en aðra sögu er að segja af rekstri Smart sem einnig tilheyrir bílasamstæðunni. Talið er að tap Smart á ári hverju nemi á bilinu 500-700 milljón evrur, eða 68 til 95 milljörðum króna og það er ekki til að skemmta hluthöfum í Daimler. Því eru forsvarsmenn þar á bæ að hugleiða sölu á þessum smávaxna bílaframleiðanda. Bílar Smart eru seldir í 40 löndum heims en það virðist ekki ganga alltof vel á tímum þar sem flestir bílkaupendur velja jepplinga eða jeppa, en ekki örlitla borgarbíla. Viðvarandi taprekstur hefur verið á rekstri Smart og það til margra ára og þolinmæði hluthafa virðist á þrotum þar sem ekki hefur tekist að snúa rekstrinum til hagnaðar. 

Svo gæti reyndar farið að rekstri Smart verði einfaldlega alveg hætt því ekki er víst að margir áhugasamir kaupendur séu á Smart. Heyrst hafa raddir um að ákvörðun um afdrif Smart verði tekin hjá Daimler í lok þessa árs. Í viðleitni Daimler til að snúa til hagnaðar breytti fyrirtækið Smart í eingöngu rafmagnsbílaframleiðanda, en þrátt fyrir almennan áhuga á rafmagnsbílum hefur það ekki dugað til. Smart hefur verið í samstarfi við Renault um smíði bæði Renault Twingo og Smart bíla, en hjá Renualt er vilji til að hætta því samstarfi og verði svo eykur það líkurnar á að Smart fyrirtækið verði lagt niður.