Einstæð þriggja barna móðir vaknaði upp við vondan draum á miðvikudaginn, fyrsta dag febrúarmánaðar. Hún kíkti í heimabankann sinn í appi Íslandsbanka og varð fyrir áfalli. Þrátt fyrir að búið væri að borga út laun var reikningurinn tómur.
Smálánafyrirtækið Núnú lán ehf. hafði tæmt bankareikninginn hennar með 10 færslum sem allar voru milli 28 og 29 þúsund krónur. Í færslu sem móðirin setti í hópinn Hjálpum fólki segist hún hafa asnast til að taka lán hjá fyrirtækinu fyrir einu og hálfu ári og engin viðvörun hafi verið gefin áður en öll launin hennar hafi verið tekin í morgun. Hún segist ekki geta borgað leigu eða keypt mat fyrir börn sín þennan mánuð. Biður hún um aðstoð og segir allt hjálpa, líka mat og flöskur.
Brynhildur Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Neytendasamtakanna, segir samtökin telja skuldfærslur af þessu tagi andstæðar lögum, þær séu allt of víðtækar, ekki sé kveðið á um tiltekinn dag eins og til dæmis þegar fólk lætur skuldfæra líkamsræktarkortið eða Visa-reikninginn né tiltekna upphæð.
„Þá eru lán er ekki skuldfærð strax eftir eindaga eins og eðlilegt væri heldur eftir að innheimtukostnaður hefur safnast upp. En það er einmitt viðskiptamódelið, að safna innheimtukostnaði á kröfurnar.“

Leifur Haraldsson, framkvæmdastjóri Núnú lána ehf., segir fyrirtækið hafa heimild til að gjaldfæra kort til endurgreiðslu lána og kostnað af þeim. Þetta sé ekki nýtt og algeng leið til endurgreiðslu og tryggingar lána og segir sams konar skilmála hjá Valitor, Borgun og bönkunum.
„Núnú notar skuldfærslu sem tryggingu til greiðslu og er sú leið notuð ef lán lenda í vanskilum og greiðendur greiða hana ekki fyrir eindaga. Markmiðið er að ná vanskilum niður,“ segir Leifur. Hann segir þetta löglegt. „Núnú lán ehf. er skráð lánafyrirtæki hjá Neytendastofu sem og undir eftirliti Fjármálaeftirlitsins og fylgir lögum og reglum sem því fylgja. Ef ekki þá mundi félagið ekki geta starfað.“
Samkvæmt upplýsingum frá Seðlabankanum hefur FME ekki eftirlit með útlánastarfsemi og viðskiptaháttum lánveitenda skráðum hjá Neytendastofu.
Þórunn Anna Árnadóttir, forstjóri Neytendastofu, segir Neytendastofu ekki geta haft eftirlit með skuldfærslum á bankareikningum. Aðspurð segir hún að mögulega þurfi að skerpa á löggjöf til að vernda hagsmuni neytenda.
Samkvæmt Íslandsbanka getur bankinn ekkert gert varðandi skuldfærslur þegar viðskiptavinir hafi gefið heimild til úttektar.
