Íbúar smáhýsanna á Gufunesvegi í Grafarvogi segja lögreglu ekki hafa haft frekari afskipti af þeim eftir að lík fannst nálægt byggingunum í morgun. Að sögn eins þeirra fannst líkið á götunni fyrir framan smáhýsin og voru lögreglumenn þar á ferð í morgun.

Í frétt DV um líkfundinn frá því í morgun kom fram að lögregla teldi of snemmt að álykta um hvort dauða hins látna hefði borið að með saknæmum hætti. Íbúum smáhýsanna bar saman um að lögreglan legði oft leiðir sínar þangað en hefði ekki gert það eftir að hún yfirgaf svæðið eftir líkfundinn.

„Það voru tíu, fimmtán löggur hérna, en ég svaf í gegnum þetta,“ sagði Máni Jökull Karlsson, einn húsráðandi að Gufunesvegi. „Hvað á maður að halda? Það eru bara fimm kofar hérna, sko. Mér var ekki kennt um þetta, og þeir eru vanir að gera það. Þegar Friðfinnur hvarf, þá komu þeir í sérstaka ferð hingað. Ég missti af þessu en þetta var víst rosalegt umstang.“