Smáhýsið sem kviknaði í í gærmorgun er ónýtt. Smáhýsið er staðsett úti á Granda og er í eigu Félagsbústaða. Er það hluti af þyrpingu húsa úti á Granda fyrir heimilislausa einstaklinga.

Reykjavíkurborg getur ekki gefið upplýsingar um hvort einstaklingnum sem bjó í húsnæðinu hafi verið fundið annað húsnæði.

Í svari til Fréttablaðsins kemur fram að almenna reglan sé sú að ef íbúi í félagslegu húsnæði missir skyndilega heimili sitt, svo sem eins og eftir bruna, þá sé allt kapp lagt á að koma viðkomandi í skjól og úthluta öðru húsnæði sem allra fyrst.

Íbúar í smáhýsum hafa hver sinn ráðgjafa og fá stuðning VoR-teymis Reykjavíkurborgar (Vettvangs- og ráðgjafarteymi).