Starfsmenn framkvæmdadeildar Reykjavíkurborgar luku í vikunni uppsetningu á smáhýsum fyrir heimilislaust fólk í Gufunesi.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri greindi frá tímamótunum á samfélagsmiðlum og deildi myndum. Sagðist borgarstjórinn ekki oft tárast í vinnunni en að það hefði hann gert þegar hann sá myndir af hinum glæsilegu smáhýsum.

„Þetta húsnæði hefur verið uppnefnt „gámahúsnæði“ sem er rangnefni og hluti af neikvæðri umræðu sem oft kemur upp þegar verið er að auka og þétta þjónustu við einstaklinga sem teljast á jaðri samfélagsins,“ skrifaði Dagur.

Smáhýsin væru hluti af nýrri nálgun sem kallaðist „Húsnæði fyrst“ og fæli í sér að gera ekki stranga kröfu um edrúmennsku eða bata heldur tryggja húsnæði og aðstæður sem gerðu fólki í erfiðri stöðu kleift að ná bata.

„Stefnan byggir á virðingu og trú á fólki og hefur reynst vel,“ skrifaði Dagur.

Þá vakti borgastjóri enn fremur athygli á því að hönnuður húsanna, arkitektinn Steinar Sigurðsson, lifði ekki til að sjá þau rísa. Steinar féll frá í lok árs 2019, aðeins 62 ára. Hann stofnaði og rak Teikn arkitektaþjónustu til dauðadags. Steinar var margverðlaunaður arkitekt og kom að hönnun fjölda þekktra bygginga hérlendis, meðal annars Ráðhúss Reykjavíkur.