Díana Sjöfn Jóhannsdóttir, rithöfundur og bókmenntafræðingur, lenti í því óskemmtilega atviki að vera skipuð í sóttkví í gær eftir að hafa umgengist smitaðan einstakling. Hún þarf því að vera í burtu frá fjölskyldu sinni og barni í viku en henni bauðst að dvelja í bústað vinar síns sem er staðsettur á Suðurlandi nálægt Hellu.
Nógu erfitt er að vera í burtu frá barni sínu í viku en málin vandast þó enn frekar vegna kosninganna komandi laugardag og finnst Díönu margt vera sérstakt við skipulagið hjá þeim sem eru í sóttkví eða einangrun.
„Þetta er svo sem alveg skýrt og mér finnst gott að geta kosið af því ég vil auðvitað nýta kosningarétt minn. En manni finnst þetta samt eitthvað svo sérstakt og forneskjulegt að þurfa að skrifa á blað og svo þarf einhver að sjá atkvæði manns. Ég þarf að treysta einhverri manneskju fyrir að skila atkvæðinu mínu. Mér finnst það kannski smá óþægilegt,“ segir Díana.
Henni finnst tilhugsunin um að þurfa að treysta annarri manneskju fyrir atkvæði sínu ekki vera jafn þægileg eins og geta bara skilað því sjálf í kjörkassann.
„En auðvitað ætla ég að fara og kjósa og verð bara að treysta því að atkvæðið mitt fari á réttan stað,“ segir Díana.
Ég þarf að treysta einhverri manneskju fyrir að skila atkvæðinu mínu. Mér finnst það kannski smá óþægilegt.
Leyfilegt að kjósa í gegnum bílrúðu
Eins og Fréttablaðið greindi frá í gær þá er einstaklingum sem eru í sóttkví eða einangrun leyfilegt að kjósa í gegnum bíl í utankjörfundaatkvæðagreiðslu á sértilgerðum kjörstöðum og þurfa þeir þá að skrifa atkvæði sitt á blað og sýna það í gegnum bílrúðuna.
Díana gerir ráð fyrir því að hún muni þurfa að keyra á Selfoss til að kjósa en hún segir þó ýmsum spurningum ósvarað varðandi framkvæmdina.
„Á ég bara að skrifa flokkinn? Segjum ef mig langar að strika einhvern út af listanum. Ég veit ekki hvort maður á bara að skrifa það líka. Á ég að skrifa kjördæmið mitt á blaðið? Er það að fara að vera ógilt atkvæði ef ég skrifa þetta eitthvað vitlaust á blaðið?“
Díana ætlar þó að reyna að stressa sig ekki of mikið á þessu og segir fátt annað í stöðunni en að vona að þetta gangi upp.
„Ég ætla bara að treysta á að þetta gangi,“ segir hún að lokum.