Boeing 737 Max 8 flug­vél Lion Air sem hrapaði nokkrum mínútum eftir flug­tak fyrir rúmu ári síðan, átti við mörg önnur öryggis­vanda­mál að stríða en gallaðan búnað sem hefur orðið til þess að Boeing hefur neyðst til þess að kyrrsetja allar flugvélar þeirrar tegundar.

Rann­sókn á flug­slysinu sýndi fram á að fjöldi annarra at­riða en framleiðslugalla, hafi átt þátt í því að flug­vélin hafi hrapaði. Um­fjöllun um fram­leiðslu­gallann í Max 8 vélunum og gagn­rýni á Boeing, er sögð hafa verið „guðs­gjöf“ fyrir indónesíska flug­fé­lagið þar sem sú mikla fjöl­miðla­um­fjöllun sem Boeing hefur fengið hafi valdið því að Lion Air hafi sloppið við gagn­rýni fyrir ýmis at­riði sem talin eru hafa haft á­hrif á að flug­vélin hrapaði.

Hundsuðu ábendingar um öryggi

Rann­sókn blaða­manna New York Times hefur leitt í ljós að flug­fé­lagið hafi van­rækt við­hald og önnur öryggis­at­riði flug­véla sinna, of­gert starfs­fólki sínu með vinnu og falsað skjöl um þjálfun flug­manna. Þá hafi það hundsað at­huga­semdir flug­manna um öryggi flug­véla; þar á meðal um öryggi Max 8 vélarinnar sem hrapaði.

Þrátt fyrir mörg slys Lion Air síðustu ár, hefur flug­fé­lagið ekki reynt að bæta öryggis­mál sín, en frá því að það var stofnað árið 1999 hefur það lent í ellefu flug­slysum og al­var­legum til­vikum.

Eftir flug­slysið gaf flug­fé­lagið út að það myndi bæta öryggis­ferla, en lítið hefur gerst, og ekki hefur enn verið tekið á þeim á­bendingum sem bæði rann­sak­endur og starfs­fólk hefur komið á fram­færi.

Jimmy Kalebos, fyrrverandi flugmaður Lion Air, segir að félagið hafi enda ávallt neitað að taka mark á ábendingum um vandamál og spyr: „Hvernig geturðu lagað vanda­mál ef þú viður­kennir ekki að það sé til staðar?“

Annar fyrrverandi flugmaður, sem kemur ekki fram undir nafni, sagði við blaðamenn New York Times að öryggismál Lion Air hefðu langt í frá batnað eftir slysið. Þvert á móti virðist flugfélagið þrjóskast við að gera nokkrar breytingar.

„Það eru engin vandamál“

Í frétta­skýringunni segir að Lion Air hafi meðal annars nýtt sér pólitísk tengsl til þess að hjálpa til við ævin­týra­legan vöxt og að komast hjá rannsóknum. Eftir flug­slysið hafi það svo nýtt sér þau tengsl til þess að fela niður­stöður rann­sóknarinnar á or­sökum þess. Þá hafi mörg af þeim til­vikum og öryggis­vanda­málum sem til­kynnt hefur verið um, ekki verið rann­sökuð af þar til bærum yfir­völdum.

w_54749312.jpg


„Við­hald á flug­vélum Lion Air er gott,“ er haft eftir indónesíska ráð­herranum Luhut Pand­jaitan. „Það eru engin vanda­mál með flug­mennina og starf­semi þess er mjög góð.“ Samt sem áður eru slys og al­var­leg til­vik mun al­gengari hjá Lion Air en flestum öðrum flug­fé­lögum.

Gagnrýnin ekki réttmæt

„Maður fær það á til­finninguna að þau gögn sem sýni Lion Air í slæmu ljósi séu grafin djúpt í skýrslunni,“ segir John Gog­li­a, sér­fræðingur í flug­öryggis­málum, um skýrslu rannsóknarnefndar um hrap Max 8 vélarinnar. Þó að í skýrslunni hafi komið fram ýmis gagn­rýni var lítið gert úr því að flug­fé­lagið bæri á­byrgð á slysinu. Þetta þykir til marks um rótgróna spillingu í Indónesíu og hvernig Lion Air hafi notfært sér hana til að komast hjá því að taka á öryggismálum sínum.

Ýmis þeirra at­riða sem minnst er á í skýrslunni þykja samt sem áður vera veru­lega al­var­leg, líkt og að flugmenn hafi hlotið ónæga þjálfun. Svar flug­fé­lagsins var að „það væri með­vitað um að reynt hefði verið að gagn­rýna flug­menn og flug­virkja fé­lagsins.“ Það væri þó ekki rétt­mæt gagn­rýni og þau at­riði hefðu ekki haft á­hrif á öryggi flug­vélarinnar eða haft nokkuð með hrap hennar að gera.

Forsvarsmenn flugfélagsins segjast þó munu taka mark á þeim ábendingum sem komi fram í skýrslu rannsóknarnefndar um hrap Max 8 vélarinnar. Það muni þó taka tíma, enda sé skýrslan 323 blaðsíður.