Innviðaráðuneytið í Slóveníu er búið að veita leyfi á grundvelli orkulaga fyrir því að reisa annan kjarnorkofn við kjarnorkuverið í Krško.

Kjarnorkuverið er eina sinnar tegundar í Slóveníu og var smíðað þegar Slóvenía var hluti af Júgóslavíu.

Ef ráðist verður í framkvæmdirnar verða viðbótin við kjarnorkuverið í Krško fyrstu kjarnorkuframkvæmdir Slóveníu frá því að landið lýsti yfir sjálfstæði árið 1991.

Jernej Vrtovec, innviðaráðherra Slóveníu, sagði á blaðamannafundi í vikunni að markmiðið væri að byggja nútímavæddan kjarnorkuofn sem væri mun öruggari en fyrri kjarnorkuver.

Stjórnvöld hafa gefið út að markmið þeirra sé að verða umhverfisvænni og minnka kolanotkun landsins. Er þetta skref í átt að umhverfisvænni orkunotkun.

Meðal þeirra sem landa sem hafa lýst yfir áhyggjum eru nágrannar Slóvena í Austurríki en Vrtovec ítrekaði á fundinum að það sé ekki búið að samþykkja endanlega framkvæmdina þótt að fyrsta skrefið hefði verið tekið.