Fulltrúar alþjóðlegu dýraverndarsamtakanna AWF/TSB (Animal Welfare Foundation/Tierschutzbund Zürich) fylgdust með slasaðri blóðmeri á sveitabæ í grennd við Svínavatn í fjóra daga án þess að merin fékk viðeigandi læknisaðstoð.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sem samtökin birtu í síðustu viku en skýrslan er byggð á tveggja ára rannsókn á blóðmerahaldi á Íslandi. MAST rannsakar myndband sem samtökin birtu af blóðtöku á Íslandi.

Hér má sjá sárið á hægri afturfæti merinnar.
Myndir: AWF

Merin var með sýkingu í fimm sentímetra opnu sári. Sárið var ljótt eins og eftir gaddavír. Búið var að spreyja bláu sótthreinsiefni á sárið en slíkt efni á aðeins að nota fyrir grunn sár. Claudia Eggert, þýskur dýralæknir, segir að af myndum og myndböndum að dæma hefði þurft að gefa merinni sýklalyf og kvalastillandi lyf, hreinsa sárið og sauma það og leyfa merinni að hvíla sig.

4. september 2019:

Fulltrúar AWF sjá merina með stórt opið sár á hægri afturfæti og vökvi lekur úr sárinu. Þá má sjá blátt sprey við sárið sem er líklegast sótthreinsandi efni en sárið er enn opið og greinilegt að merin er í miklum sársauka. Í slíkum aðstæðum á dýralæknir að meðhöndla sárið sem allra fyrst eða lóga dýrinu samkvæmt íslenskum lögum um velferð dýra.

„Sú staðreynd að búið er að spreyja efni á sárið segir okkur að eigendur hafa tekið eftir sárinu en hafa ekki gripið til viðeigandi ráðstafana,“ skrifa fulltrúarnir í punktum sínum.

5. september 2019:

Fulltrúar AWF snúa aftur á sama stað og sjá sömu merina. Ástand hennar hefur greinilega versnað og hún getur ekki stigið í hægri afturfótinn. Sárið virðist sýkt en það má greinilega sjá hvítan og gulan vökva leka úr sárinu. Hækillinn er bólginn og enn má sjá bláa spreyið í kringum opna sárið.

Fulltrúar fylgdust með merinni í fjóra daga og tilkynntu málið til MAST og lögreglu.
Mynd: AWF

6. september 2019:

Merin er enn á sama stað og ástand hennar hefur áfram versnað. Hún stendur kjur á þremur fótum. Eyrun vísa aftur og merin geispar ítrekað sem er merki um að hún sé í sársauka. Fulltrúar AWF hringja í dýralæknaþjónustu MAST til að tilkynna málið.

7. september 2019:

Merin er enn á sama stað og hefur ekki fengið viðeigandi aðstoð þrátt fyrir tilkynningu til MAST. Hún lyftir hægri afturfæti stöðugt sem bendir til þess að ástand hennar hefur ekki batnað. Fulltrúar AWF tilkynna málið til lögreglunnar.

MAST sagðist ekki geta gert og bað fulltrúana að hafa frekar samband við lögreglu.
Mynd: AWF

Símtal og tölvupóstur á MAST

Fulltrúar AWF hringdu í MAST klukkan 15:15 þann 6. september en fengu símsvara á íslensku. Þau reyna nokkur símanúmer þar til þau ná í starfsmann MAST og tilkynna um að merin væri alvarlega slösuð. Starfsmaður MAST segir að dýralæknir verði sendir á staðinn. Fulltrúar AWF senda MAST nákvæmt Google Maps kort af svæðinu þar sem má finna merina.

MAST sendir tölvupóst um kvöldið sama dag, klukkan 18:02, þar sem fulltrúunum er bent á að hafa beint samband við lögregluna þar sem MAST getur ekki sinnt málinu vegna undirfjármögnunar. Fulltrúar AWF svara að þeim þyki óásættanlegt að stofnunin hafi ekki sjálf haft samband við lögreglu.