Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna óska eftir því að krabbamein hjá slökkviliðsmönnum verði skilgreint sem atvinnusjúkdómur.

Krabbamein er mun algengara hjá slökkviliðsmönnum en hjá öðru vaktavinnufólki og slökkviliðsmenn eru tvisvar sinnum líklegri að fá krabbamein. Á þetta er bent í umsögn Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna við frumvarp til laga um breytingu á lögum um slysatryggingar almannatrygginga.

Fram kemur að á Íslandi eru starfandi um 1000 slökkviliðsmenn, af þeim eru rúmlega 400 sem eru í fullu starfi. Segir í umsögninni að þeir séu útsettir fyrir starfsumhverfi sem vísindalega hafi verið sannað að auki líkur á heilsubresti þá sérstaklega ákveðnum gerðum krabbameina. Þetta vilja slökkviliðs-og sjúkraflutningamenn fá viðurkennt í lögum og að þeim verði tryggður bótaréttur vegna þessa.

Mynd/Eyþór Árnason

Í reyk eru krabbameinsvaldandi efni og á vegum LSS hefur um verið starfandi Krabbameinsnefnd. Kemur fram í umsögninni að það sé alþjóðleg krafa slökkviliðsmanna að fá ákveðnar tegundir krabbameins viðurkenndar sem starfstengda sjúkdóma.

Þeir sjúkdómar sem eru nefndir eru heilakrabbamein, mergæxli, hvítblæði, Non-Hodgkin‘s eitlakrabbamein, sortuæxli, ristilkrabbamein, húðkrabbamein, eistnakrabbamein og blöðruhálskirtilskrabbamein.

Meðal þess sem bent er á málinu til stuðnings er stór samantekt Vinnuverndarstofnunar Evrópu á rannsóknum á atvinnutengdum krabbameinum.

Þá er vísað í ritrýnda grein um rannsóknir á atvinnutengdum krabbameinum hjá slökkviliðsmönnum sem birtist á vef Alþjóða vinnumálastofnunarinnar ILO.