Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu (SHS) verður með sérstakan viðbúnað á morgun vegna asahláku og hlýinda. Gul viðvörun er á öllu landinu á morgun vegna þessa en hún tekur gildi á höfuðborgarsvæðinu klukkan fimm í fyrramálið.
Í tilkynningu frá slökkviliðinu biðla þau til fólks að huga að bæði niðurföllum við hús sín og grýlukerti og snjóhengjur á húsum.
„Það er verið að kalla út aukafólk. Við erum búin að vera að fylgjast með spánni og hún virðist vera að ganga eftir. Svona dagar geta verið þungir hjá okkur, í svona vatnstjónsverkefnum,“ segir Ásdís Gíslason upplýsingafulltrúi Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðisins.
Hún segir að best sé fyrir húseigendur að huga að niðurföllum í görðum en líka við gangstéttir og í næsta nágrenni við húsið. Víða er þykkur klaki yfir en Ásdís mælir með því að fólk reyni að brjóta hann yfir niðurföllum svo rigningarvatn og snjór sem bráðnar á morgun komist leiðar sinnar.
„Fólk veit yfirleitt hvar niðurföllin eru en auðvitað eru víða stórir og þungir klakabankar. En snjórinn þarf að komast eitthvað. Það er mikilvægt að hjálpast að svo að þessi dagur á morgun verði sem skástur. Vatnstjón geta verið erfið og þess vegna erum við að hnippa í fólk um að hjálpast að með þetta. Við gerum okkur grein fyrir því að það getur verið erfitt að brjóta klakann en það á að vera hægt.“

Þá eru einnig víða stór grýlukerti og þungar snjóhengjur á húsum sem geta verið hættuleg fólki þegar hlýnar því þau geta fallið af húsum.
„Þegar þetta fer að falla niður getur það verið stórhættulegt,“ segir Ásdís.
SHS vill einnig benda á að ef fólk beitir hálkuvörnum við húsnæði, er ráðlagt að nota sand en ekki salt, en hægt er að nálgast sand hjá mörgum sveitarfélögum.