Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu var kallað til vegna reyks í íþróttahúsi Gerplu í Kópavogi á sjötta tímanum í kvöld.

„Það hafði verið kveikt í klósettrúllu þar inni á baði. Kerfið fór í gang og það varð að rýma húsið,“ segir Sig­ur­jón Hendriks­son, varðstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu.   

Slökkviliðsmenn frá einni stöð voru ræstir út ásamt sjúkrabíl en þegar komið var á staðinn hafði starfsmaður Gerplu slökkt eldinn með léttvatnsslökkvitæki og varð tjón minniháttar. Slökkviliðið reyklosaði aðstöðuna á 20 – 30 mínútum. Engin meiðsl urðu á fólki.

„Þetta hefur verið eitthvað prakkarastrik en það kom smá reykur af þessu.“

Ekki var notast við einn af fjórum nýjum bílum slökkviliðsins í útkallinu sem slökkviðliðið tók við í dag en starfsmenn eru enn í þjálfun um notkun bílanna. „Þeir verða teknir í notkun öðru hvoru megin við mánaðarmótin,“ segir Sigurjón.