Tvö útköll vegna vatnsleka bárust Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu upp úr klukkan sjö í morgun. Dælubílar voru sendir á svæðið, en að sögn Ásdísar Gíslason eru slökkviliðsmenn enn við störf.
„Þetta er ekkert stórvægilegt, bara vatnsleki sem verið er að vinna í og koma í niðurföll. Þetta er annars vegar í Hafnarfirði og hins vegar í vesturbæ Reykjavíkur,“ segir Ásdís.
Þá hafi einnig verið eitt minniháttar vatnstjón á höfuðborgarsvæðinu fyrr í nótt.
„Þannig að enn sem komið er er þetta að fara rólega af stað,“ segir hún.
Á vef Veðurstofunnar kemur fram að spáð sé suðaustan hvassviðri eða stormi bæði sunnan- og vestanlands í dag með úrkomu og hlýnandi veðri. Snýst í sunnan strekking eða allhvassan vind um hádegisbil með talsverðri rigningu sunnan- og vestan til með hlýindum á landinu öllu. Gular veðurviðvaranir eru í gildi á öllu landinu fram til miðnættis í kvöld vegna asahláku, en um er að ræða mikil umskipti í veðri frá kuldatíðinni sem verið hefur.
Þá varar Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur hjá Vegagerðinni, við flughálku á ýmsum vegum með þýðunni. Í dag og fram til morguns fari saman flughálka með hvössum og byljóttum vindi, ekki síst norðan- og norðaustanlands, en slíkar aðstæður geti verið mjög varasamar og krefjandi.
Hægt er að fylgjast með veðri á vef Veðurstofunnar og færð á vegum á síðu Vegagerðarinnar. Þá er einnig hægt að fylgjast með stöðu umferðar á umferdin.is
Ef fólk hefur ábendingar eða myndir sem tengjast óveðri eða asahlákunni er því velkomið að hafa samband við ritstjorn@frettabladid.is eða á Facebooksíðu Fréttablaðsins.