Tvö út­köll vegna vatns­leka bárust Slökkvi­liðinu á höfuð­borgar­svæðinu upp úr klukkan sjö í morgun. Dælu­bílar voru sendir á svæðið, en að sögn Ás­dísar Gísla­son eru slökkviliðsmenn enn við störf.

„Þetta er ekkert stór­vægi­legt, bara vatns­leki sem verið er að vinna í og koma í niður­föll. Þetta er annars vegar í Hafnar­firði og hins vegar í vestur­bæ Reykja­víkur,“ segir Ás­dís.

Þá hafi einnig verið eitt minni­háttar vatns­tjón á höfuð­borgar­svæðinu fyrr í nótt.

„Þannig að enn sem komið er er þetta að fara ró­lega af stað,“ segir hún.

Á vef Veðurstofunnar kemur fram að spáð sé suð­austan hvass­viðri eða stormi bæði sunnan- og vestan­lands í dag með úr­komu og hlýnandi veðri. Snýst í sunnan strekking eða all­hvassan vind um há­degis­bil með tals­verðri rigningu sunnan- og vestan til með hlýindum á landinu öllu. Gular veður­við­varanir eru í gildi á öllu landinu fram til mið­nættis í kvöld vegna asa­hláku, en um er að ræða mikil um­skipti í veðri frá kulda­tíðinni sem verið hefur.

Þá varar Einar Svein­björns­son, veður­fræðingur hjá Vega­gerðinni, við flug­hálku á ýmsum vegum með þýðunni. Í dag og fram til morguns fari saman flug­hálka með hvössum og byljóttum vindi, ekki síst norðan- og norð­austan­lands, en slíkar að­stæður geti verið mjög vara­samar og krefjandi.

Hægt er að fylgjast með veðri á vef Veður­stofunnar og færð á vegum á síðu Vega­gerðarinnar. Þá er einnig hægt að fylgjast með stöðu um­ferðar á um­ferdin.is


Ef fólk hefur á­bendingar eða myndir sem tengjast ó­veðri eða asa­hlákunni er því vel­komið að hafa sam­band við rit­stjorn@fretta­bladid.is eða á Face­book­síðu Frétta­blaðsins.