„Við erum hér fyrir ykkur,“ segir í færslu á Facebook-síðu Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu í morgun og eru það orð að sönnu.
Slökkviliðið fékk óvenjulega símhringingu í gærkvöldi sem höfðu lent í því að festa fótboltann sinn uppi í tré. Í færslu slökkviliðsins kemur fram að boltinn hafi verið nokkuð hátt uppi, einhverja tuttugu metra á að giska, og því erfitt að ná honum.
Það er skemmst frá því að segja að slökkviliðið sendi bíl á vettvang til að aðstoða unglingana og var boltanum á endanum komið niður úr trénu með því að sprauta vatni á hann.
Í færslu slökkviliðsins kemur fram að erill hafi verið í sjúkraflutningum síðastliðinn sólarhring eins og svo oft áður, en alls var farið í 123 flutninga. Eldur kom upp í bifreið fyrri part nætur í Hafnarfirði og barst hann yfir í annan bíl. Þeir voru á bílaplani og ekki mikil hætta á ferðum fyrir fólk.