Slökkvi­liðið á höfuð­borgar­svæðinu tók í dag við fjórum nýjum slökkvi­bílum en form­leg af­hending bílanna fór fram á slökkvi­stöðinni í Hafnar­firði. Stjórnar­menn slökkvi­liðsins, borgar­stjórinn í Reykja­vík og bæjar­stjórar á höfuð­borgar­svæðinu tóku við bílunum af full­trúa selj­enda.

Stutt sýning var á bílunum og búnaði þeirra í dag.
Fréttablaðið/Anton Brink

Að sögn Jóns Viðar Matthías­sonar, slökkvi­liðs­stjóra, voru bílarnir sem eru í notkun núna teknir inn upp úr alda­mótunum. „Þeir bílar höfðu reyndar verið af­skap­lega vel við­haldið og því um líkt en samt sömu gömlu bílarnir,“ segir Jón í sam­tali við Frétta­blaðið en hann segir að með nýju bílunum komi nýrri og á­reiðan­legri tæki.

Mikið af nýjum búnaði

„Þetta er mikið af nýjum búnaði sem er í bílunum og þar ber helst að nefna tæki sem getur hrein­lega gert gat á hina þykkustu veggi og stál­hurðir og annað með því að sprauta inn fínum vatns­úða,“ segir Jón. „Svo er líka sér froðu­búnaður sem er búinn að vera hérna á landi áður en er fyrst kominn til okkar núna.“

„Bæði þessi tæki í raun og veru gera það að verkum að starfs­um­hverfi slökkvi­liðs­manna ætti að vera öruggara,“ segir Jón og vonar að með tímanum verði hægt að senda menn inn í betri að­stæður heldur en nú er gert. Þá segir Jón að klippi­búnaður, sem notaður er til að klippa bíla í sundur, sé orðinn raf­drifinn sem geri það að verkum að há­vaði og mengun á vett­vangi verði minni.

Nýju bílarnir taka á næstunni við sem fyrsta út­kalls­tæki á öllum fjórum starfs­stöðvum slökkvi­liðsins á höfuð­borgar­svæðinu en hinir verða á­fram hjá slökkvi­liðinu til vara.

Stjórnarmenn fengu að prófa að sprauta úr slöngu og sitthvað fleira.
Fréttablaðið/Anton Brink