Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu var kallað út í tvígang um fjögurleytið í nótt vegna vatnstjóns, annars vegar í Glæsibæ og hins vegar í Háskólanum í Reykjavík.

Að sögn vakthafandi varðstjóra hjá slökkviliðinu var vatnstjónið í Glæsibæ minniháttar en aðeins meira í Háskólanum í Reykjavík. Slökkviliðið hafi lokið störfum um fimmleytið.

Alls fór slökkviliðið í fjögur verkefni vegna vatnstjóns síðasta sólarhringinn og voru þau öll í verslunar og iðnaðarhúsnæði.

Þá sinnti slökkviliðið einnig 79 sjúkraflutningum og segir vakthafandi varðstjóri aðspurður hvort mikið hafi verið um sjúkraflutninga vegna hálkuslysa erfitt að segja til um það. Verkefnin hafi verið mjög blönduð.