Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu barst í gær tilkynning um reyk og brunalykt í iðnaðarhverfi í Reykjavík.

Nokkur viðbúnaður var vegna málsins en þegar slökkviliðsmenn komu á staðinn reyndust upptök reyksins vera við íbúðarhús fyrir neðan Smiðjuveg.

Þar sást maður brenna rusl í gömlu grilli með tilheyrandi lykt. Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu var eldurinn slökktur með garðslöngu og íbúinn vinsamlegast beðinn um að fara með ruslið í Sorpu.

Ekki liggur fyrir hvað íbúanum gekk til með athæfinu.

„Við hvetjum fólk að fara með ruslið sitt á endurvinnslustöðvar alls ekki farga því á þennan hátt, það veldur bara leiðindum,“ segir í færslu á Facebook-síðu slökkviliðsins.

Alls voru dælubílar slökkviliðsins boðaðir út fjórum sinnum á höfuðborgarsvæðinu undanfarinn sólarhring og voru 84 boðanir á sjúkrabíl, þar af 15 forgangsverkefni.