Svo virðist sem að slokknað hafi í aðalgíg eld­gossins í Geldinga­dölum. Kristín Jóns­dóttir, hóp­stjóri náttúru­vár hjá Veður­stofunni, birti mynd á Twitter-síðu sinni af gígnum þar sem engin glóð er sjáan­leg og tekur þar einnig fram í at­huga­semd að tölu­vert hafi dregið úr skjálfta­virkni.

Í sam­tali við RÚV segir hún það vera nokkur tíðindi en er þó ekki til­búin að lýsa því yfir að gosinu sé lokið. Hún segir að hugsan­lega gæti enn verið mikil virkni undir yfir­borðinu. Kristín minnir á að áður hafi dregið úr gosinu tíma­bundið en flæðið hafi síðan aukist tölu­vert á ný.

Mikil virkni var í eld­gosinu í gær fram á nótt og nýtt hraun flæddi til að mynda ofan í Nátt­haga en virknin hefur nú lognast út af á yfir­borðinu.