Innlent

Slös­uð­ust í vél­hjól­a­slys­i: „Hafð­i þrjár bíl­lengd­ir til að bregð­ast við“

Vilhjálmur Örn og Svanfríður slösuðust í alvarlegu umferðarslysi í ágúst. Þau eru á batavegi en eiga nokkuð í land. Engu mátti muna að miklu verr færi.

Vilhjálmur Örn og Svanfríður eru á batavegi, þó þau glími enn við afleiðingar slyssins. Myndin var tekin í síðustu viku. Mynd/Anna Guðný Egilsdóttir

Alveg efst í brekkunni heyri ég að það er kallað á mig: „Passaðu þig!“ Þá sé ég hvar bíll er kominn yfir á öfugan vegarhelming,“ segir Vilhjálmur Örn Halldórsson, Öddi, í samtali við Fréttablaðið. Hann lenti þann 3. ágúst í alvarlegu mótorhjólaslysi, þar sem jeppling var ekið yfir á öfugan vegarhelming á Suðurlandsvegi, skammt austan Þjórsár. Konan hans, Svanfríður Ásgeirsdóttir, slasaðist illa í óhappinu.

Hjónin ætluðu upphaflega að hjóla úr Holtunum á Suðurlandi og austur í Vík, til skyldmenna, en vegna fráfalls í fjölskyldunni breyttu þau ferðaáætlun sinni. Þau héldu því á leið vestur. „Við hjólum af stað og það er engin umferð í vesturátt. Ég keyri bara rólega enda er enginn bíll á eftir mér,“ segir Öddi.

Þegar þau komu að brekku, skömmu eftir að hafa lagt af stað, segist hann hafa heyrt að hjólið var farið að erfiða upp brekkuna. „Þá lít ég niður á hraðamælinn og sé að ég er á rétt tæpum 75 kílómetra hraða. Ég skipti þá niður um gír, til að létta á mótornum.“ Hann segir að þegar hann hafi komið efst í brekkuna hafi hann heyrt einhvern kalla til sín varnaðarorð – en að það hafi ekki verið Svanfríður. Hann tók þá skyndilega eftir því að bíll, sem var í langri lest bíla á leiðinni austur, var kominn alveg yfir á öfugan vegarhelming. „Ég hafði svona þrjár bíllengdir til að bregðast við,“ segir Öddi þegar hann rifjar upp atvikið; „Fyrsta hugsunin er að komast á milli þeirra, að miðlínunni – ég veit ekki af hverju.“ Hann lýsir því að í brekkunni sé beygja sem leyni svolítið á sér. „Hún er aflíðandi og kröpp í endann. Og það er þar sem var eins og hann færi út úr röðinni,“ útskýrir hann.

Spurður hvers vegna hann telji að bíllinn hafi farið yfir á öfugan vegarhelming svarar Öddi því til að sennilega hafi ökumaðurinn verið annars hugar. Hann hafi ekki verið að reyna framúrakstur, enda bílaröðin löng. „Ég held hann hafi verið að glápa út í loftið og hafi ekki fattað að beygja meira þegar beygjan kreppist.“ Hann tekur þó fram að þetta séu getgátur. „Ég get ekki fullyrt neitt.“

Svanfríður og Öddi ásamt systur hans, Kolbrúnu Halldórsdóttur. Þau eru staðráðin í að ná sér góðum. Ljósmynd/Aðsend

Bílstjórinn beygði ekki frá

Á þessum örstutta tíma sem Öddi hafði til að bregðast við aðstæðunum segist hann hafa reynt að keyra inn að miðlínu og fara á milli bílana sem komu á móti. „Ég man ég hugsa: „Slepp ég eða slepp ég ekki? Stuðarinn á bílnum kemur rétt aftan við fótinn á mér og ég finn að hann tekur hjólið,“ rifjar hann upp.

Öddi man ekkert frá þessari stundu en segir að ökumaðurinn hafi sennilega aldrei séð þau á hjólinu, því hann hafi ekki gert neina tilraun til að sveigja frá. Nokkuð löngu síðar hafi bílnum svo verið ekið út af veginum og út í skurð. „Ef hann hefði séð okkur þá hefði hann kannski getað sveigt fram hjá okkur. En hann hlýtur að hafa séð Svanfríði upp á húddinu.“

Hann segir að bíllinn hafi ekið á afturhluta hjólsins og fótur Svanfríðar hafi klemmst á milli. Við höggið hafi hann flogið af hjólinu en hún skollið á húddi bílsins, þar sem hún axlarbrotnaði mjög illa. Hún hafi þaðan dottið á götuna en bíllinn hafi ekki staðnæmst nærri því strax. „Ég flýg beint fram og veit ekkert af mér í fluginu,“ útskýrir hann af æðruleysi.

Öddi segist ekki gera sér neina skýra hugmynd um hvað hann var lengi án meðvitundar en grunar að það hafi ekki verið langur tími. Þegar hann rankaði við sér hafi það verið hans fyrsta hugsun að athuga hvort fæturnir væru í lagi. Hann hafi svo ætlað að standa upp og huga að Svanfríði, sem lá á götunni á að giska tíu metrum frá. Þá hafi mikill sársauki brotist fram í öxlinni. Öxlin var farin úr lið.

„Ég vissi að hún væri miklu meira slösuð en ég,“ segir hann um næstu andartök. „Svo kom þarna að sjúkraflutningamaður á frívakt til að tala við mig. Ég sagði honum að það væri allt í lagi með mig en að hann ætti að huga að Svanfríði. Skömmu eftir að hann var farinn til hennar kom kona sem hafði verið að tala um Svanfríði og sagði mér að hún hefði verið að spyrja um mig. Það var þá sem ég vissi að þetta yrði í lagi. Hún væri með meðvitund.“ Hann segist hafa orðið undrandi á því hversu fljótir sjúkrabílarnir voru á vettvang.

Brotin bein og innvortis áverkar

Við áreksturinn og fallið brotnaði fingur og bein í handarbakinu ofan við fingurinn. Sprunga kom í úlnlið og svo fór hann úr axlarlið. „Svo eru að koma alls konar kvillar fram núna,“ segir hann. „Ég er farinn að fá hausverk aftast í höfuðið og svo finn ég fyrir mjöðminni.“

Svanfríður ristarbrotnaði í slysinu og ökklinn brotnaði illa. Tvö eða þrjú rifbein brotnuðu og það kom sprunga í mjaðmagrindina. „Öxlin brotnaði svo illa að þeir sáu sér ekki fært að gera við hana. Hún fékk gervikúlu,“ segir Öddi. Í slysinu fékk hún höfuðhögg, þó hún væri með hjálm og rof kom í ósæðarvegg. Þá blæddi líka inn á nýrun auk þess sem miltað fór eitthvað úr skorðum.

Svanfríður er enn á sjúkrastofnun, nú tæpum ellefu vikum eftir slysið. Hún er í endurhæfingu á Kristnesi, í Eyjafirði, en þau hjónin búa á Akureyri. Hún fær að koma heim um helgar en er ekki farin að ganga.

Þyrla var kölluð á slysstaðinn og Svanfríður flutt með henni á Landspítalann. Þar var hún flutt á gjörgæsludeild og blóðþrýstingi haldið í lágmarki til að ósæðin myndi ekki rofna. Sprunga hafði komið í innri vegg í ósæðinni. „Þeir voru hræddir um að hún myndi rofna.“

Hér sést hvar slysið varð á Suðurlandsvegi. Loftmyndir/Map.is

Svanfríður er að sögn Ödda staðráðin í að komast á fætur. Mestu máli skipti að þau séu bæði ósködduð á mænu og höfuð í lagi. „Miðað við allt þá fór þetta eins vel og hægt var. Þó mörgum finnist það furðulegt, þá er sannleikurinn sá að ef ég hefði ekki heyrt þessa rödd í höfðinu þá hefðum við keyrt beint framan á tveggja og hálfs tonna jeppa. Ég heyrði bara „Passaðu þig!“

Öddi, sem er smiður, sér ekki fram á að snúa aftur á vinnumarkað. Það var lán í óláni að hann varð 67 ára fimm dögum eftir slysið. Hann gat því farið á lífeyri. Svanfríður er 63 ára og var heimavinnandi.

Magnþrungin stund

Það voru miðaldra hjón, ásamt sautján ára dreng, sem voru í bílnum sem ók á þau daginn örlagaríka. Þau voru frá Þýskalandi. „Þau voru í miklu sjokki,“ segir hann um Þjóðverjana. Þau hafi þó ekkert getað talað saman á slysstað þar sem þau hafi enga ensku talað.

Hann gagnrýnir að Þjóðverjarnir hafi engar upplýsingar getað fengið frá spítalanum um líðan þeirra og hafi því þurft að fara af landi brott, þremur dögum eftir slysið, án þess að vita nokkuð um afdrif þeirra. „Aumingja fólkið. Þeim hlýtur að hafa liðið hræðilega,“ segir hann.

Öddi segir að með aðstoð túlks og lögreglu hafi þó tekist að komast í samband. Skömmu síðar hafi þau Svanfríður fengið sendan heim pakka með ostum og öðru góðgæti, auk þess sem fallegt bréf hafi fylgt. Nokkru síðar hafi tekist að koma á fundi í gegn um Skype, með aðstoð túlks. Hann segir að sá fundur hafi verið mjög tilfinningaríkur. Allir hafi grátið. „Það var magnþrungin stund. Þau buðu fram alla aðstoð sem þau gætu veitt og buðu okkur út til sín í heimsókn.“ Öddi segist ekki bera kala til fólksins. Slys séu slys og þau geti alltaf orðið. Enginn geri slíkt að gamni sínu. Umræddir Þjóðverjar séu sjálfir hjólafólk og hafi því tengt enn betur við óhappið en ella.

Vinnumissir og breytt líf

Lífið hefur breyst mikið eftir slysið. Öddi bendir á að hann hafi misst frá sér vinnuna og áhugamálin, auk þess sem Svanfríður þurfi mikla endurhæfingu og sé fjarri heimilinu. Hann segir að helgarnar séu ágætar, þar sem hann hugi þá að Svanfríði og hafi eitthvað fyrir stafni, en virku dagarnir séu erfiðari.

Öddi segist eiga erfitt með einbeitingu og það hái honum svolítið. Hann eigi erfitt með að festa hugann við eitthvað annað. Hann leiði stundum hugann að því hvort hann hefði getað brugðist öðruvísi við aðstæðunum. Hann segir þó að þegar hugsununum um viðbrögð hans sleppi þakki hann fyrir að ekki hafi farið verr.

Sálfræðingur heimsótti Ödda að sögn í tví- eða þrígang þegar hann var á spítalanum. Eftir að heim var komið hefur enga slíka aðstoð verið að fá. Honum finnst skortur á  eftirfylgni. Þó hann hafi ekki slasast mjög illa þurfi hann á aðstoð að halda. Hann þurfi að vinna úr slysinu, fötluninni eftir slysið og vinnumissinum. „Við hefðum viljað fá meiri sálræna aðstoð,“ segir hann hreinskilinn. Þau hafi þó verið að vinna í að fá slíka aðstoð fyrir Svanfríði, sem beri þess merki að hafa orðið fyrir miklu áfalli. „Ég er núna sjálfur að reyna að ná mér í sérfræðiþekkingu. Þetta var mikið áfall,“ segir hann að lokum.

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Innlent

​Lokanir á Lyng­dals­heiði, Hellis­heiði og Þrengslum

Innlent

Leggja fram þriðja orku­pakkann „á ís­lenskum for­sendum“

Kjaramál

„Óbilgirnin er svakaleg“

Auglýsing

Nýjast

Starfsfólk Porsche fékk 1,3 milljónir í bónus

Élja­bakki og hvassvirði nálgast suð­vestur­hornið

Clio „Besti framleiðslubíllinn“ í Genf

​„Við lifum af einn dag“

Laun forstjórans hærri en samanlögð velta fjölmiðlanna

Volvo vanmat eftirspurn eftir tengiltvinnbílum

Auglýsing