Álftin, sem varð þjóðþekkt eftir að áldós festist í gogginum á henni, útskrifaði sig sjálf úr Húsdýra- og fjölskyldugarðunum. Þar hafði hún dvalið í nokkra daga eftir að áldósin var fjarlægð og fengið aðhlynningu.

Reykjavíkurborg greinir frá þessu á Facebook-síðu sinni en þar kemur fram að álftin hafi komið hrakin og blaut í garðinn á mánudaginn. Í Húsdýragarðinum borðaði hún vel, snyrti fjaðrirnar rækilega og hvíldist en í dag hefði hún greinilega verið nægilega hress og ákvað að hafa sig á brott.

„Í morgun var hún orðin vel hress og að sögn Þorkels Heiðarssonar framkvæmdastjóra Fjölskyldu- og húsdýragarðsins komst hún út úr gerðinu, hóf sig á loft og er væntanlega á leiðinni til Urriðavatns.“

Það voru íbúar í Urriðaholti sem vöktu fyrst athygli á álftinni, en hún hafði verið með hluta úr áldós fasta í gogginum í rúma viku. Virtist hún líða miklar kvalir vegna dósarinnar og var aðframkomin þegar dósin var loks fjarlægð af starfsmönnum Náttúrufræðistofnunar á mánudaginn.