Karlmaður var nýverið dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir líkamsárás gegn fyrrverandi sambýliskonu sinni. Manninum er einnig gert að greiða konunni 450 þúsund krónur í miskabætur vegna málsins.
Samkvæmt lögregluskýrslu átti atvikið sér stað þann 18. desember 2021. Að sögn brotaþola var hún að horfa á sjónvarpið ásamt manninum, sem var búinn að neyta töluverðs áfengis. Hann hafi allt í einu orðið pirraður og gefið henni fjögur hnefahögg á vinstri vanga.
Maðurinn yfirgaf heimilið í kjölfar árásarinnar og farið til bróður síns. Brotaþoli hringdi í lögregluna og var maðurinn handtekinn skömmu síðar á heimili bróður síns.
Brotaþoli hlaut töluverða áverka vegna árásarinnar. Hún hlaut mar og yfirborðsáverka á andliti, verki í andlitsbeinum, bólgu og mar á vísifingri hægri handar, marblett á hægri upphandlegg, marbletti á vinstri upphandlegg og þreyfieymsli á hálsi, herðum og bringubeinum.
Maðurinn neitaði staðfastlega að hafa slegið brotaþola þetta kvöld. Hjá lögreglu sagðist hann hafa ýtt henni á gólfið og þannig hafi hún hlotið áverkana. Töldu rannsakendur það hafið yfir skynsamlegan vafa og þar með sannað að maðurinn hafi slegið brotaþola í andlitið.
Manninum var einnig gefið að sök að hafa keyrt ölvaður til bróður síns í kjölfar árásarinnar. Maðurinn hélt því fram að hann hafi labbað til bróður síns og neitaði hann því sök. Hann var sýknaður af þeim ákærulið.
Fyrir Héraðsdóm Reykjaness var maðurinn dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi vegna líkamsárásarinnar. Honum var þá gert að greiða fyrrverandi sambýliskonu sinni 450 þúsund krónur í miskabætur og 1.150 þúsund krónur í málskostnað.