Kallað var til lög­reglunnar á höfuð­borgar­svæðinu á þriðja tímanum í nótt eftir að ölvaður maður sló leigu­bíl­stjóra í mið­bænum. Þegar lög­reglu bar að garði neitaði maðurinn að gefa upp nafn sitt og var hann í kjöl­farið vistaður í fanga­geymslu lög­reglu þar til á­stand hans batnaði.

Ýmis mál rötuðu á borð lög­reglu í nótt og var til að mynda til­kynnt um grun­sam­legar manna­ferðir á Sel­tjarnar­nesi á ellefta tímanum. Enginn var þó sjáan­legur þegar lög­reglan kom á vett­vang.

Þá var lög­regla kölluð út vegna inn­brots í heima­húsi rétt rúm­lega fimm í nótt. Málið er í rann­sókn en enginn hefur verið hand­tekinn vegna brotsins.

Tvö út­köll bárust lög­reglunni á sama tíma í Kópa­vogi klukkan tíu mínútur yfir tíu. Annars vegar var til­kynnt um eld í bif­reið. Verið er að rann­saka hver upp­tök eldsins eru og er málið í rann­sókn lög­reglu. Hins vegar barst til­kynning um ölvaða stúlku á bóka­safni. Gekk hún leiðar sinnar eftir við­tal við lög­reglu.