Kallað var til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á þriðja tímanum í nótt eftir að ölvaður maður sló leigubílstjóra í miðbænum. Þegar lögreglu bar að garði neitaði maðurinn að gefa upp nafn sitt og var hann í kjölfarið vistaður í fangageymslu lögreglu þar til ástand hans batnaði.
Ýmis mál rötuðu á borð lögreglu í nótt og var til að mynda tilkynnt um grunsamlegar mannaferðir á Seltjarnarnesi á ellefta tímanum. Enginn var þó sjáanlegur þegar lögreglan kom á vettvang.
Þá var lögregla kölluð út vegna innbrots í heimahúsi rétt rúmlega fimm í nótt. Málið er í rannsókn en enginn hefur verið handtekinn vegna brotsins.
Tvö útköll bárust lögreglunni á sama tíma í Kópavogi klukkan tíu mínútur yfir tíu. Annars vegar var tilkynnt um eld í bifreið. Verið er að rannsaka hver upptök eldsins eru og er málið í rannsókn lögreglu. Hins vegar barst tilkynning um ölvaða stúlku á bókasafni. Gekk hún leiðar sinnar eftir viðtal við lögreglu.