Maður var handtekinn á skemmtistað í miðbænum laust fyrir klukkan fimm í nótt eftir að hafa slegið konu ítrekað í andlitið. Þetta kemur fram í dagbók lögreglu.

Með eina milljón króna í reiðufé

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði þá afskipti af einum til viðbótar á skemmtanalífinu í nótt, manni sem var ofurölvi við veitingahús í hverfi 103. Sá var handtekinn en við vistun kom í ljós að maðurinn hafði í vösum sínum rúmlega eina milljón króna í reiðufé.

Þá var ofurölvi maður handtekinn í Breiðholti rétt fyrir klukkan hálf tvö í nótt fyrir að neita að greiða fyrir akstur með leigubifreið. Hann neitaði einnig að fara að fyrirmælum lögreglu og var vistaður í fangageymslu sökum ástands síns.

Ellefu grunaðir um akstur undir áhrifum

Lögregla hafði afskipti af pari vegna slagsmála í bifreið við verslunarmiðstöð í Breiðholti í gærkvöldi. Maðurinn var handtekinn og vistaður í fangageymslu grunaður um líkamsárás, eignaspjöll og vörslu fíkniefna.

Ellefu ökumenn eru grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna í nótt. Lögregla handtók mann og konu einnar bifreiðarinnar sem neituðu að fara að fyrirmælum og réðust á lögreglumennina. Þá reyndi einn ökumaður að komast undan þegar lögreglan tendraði blá neyðarljós fyrir aftan hann. Hann ók inn um götu á móti einstefnu og er grunaður um að vera réttindalaus.