„Rannsóknir sýna að varanleg tæming Árbæjarlóns vorið 2020 hefur fjölgað hrygningarstöðvum í Elliðaánum, því í farvegi Árbæjarkvíslar á fyrrverandi áhrifasvæði lónsins er laxinn byrjaður að hrygna,“ segir Breki Logason, stjórnandi samskipta og samfélags hjá Orkuveitu Reykjavíkur.

Meðal þeirra laxa sem hrygnt hafa á þessum nýju slóðum ofan stíflu er 75 sentimetra hrygna sem í fyrrahaust sló öllum íslenskum löxum við því hún hrygndi þá fimmta árið í röð.

„Fyrri methafar voru örfáar hrygnur sem luku hrygningu í fjórgang. Þar með talin ein í Elliðaánum sem hefði hrygnt í fimmta sinn hefði henni ekki verið landað af veiðimanni sumarið fyrir hrygninguna,“ segir Breki.

Fiskigengd í Elliðaárnar verið ágæt

Jóhannes Sturlaugsson, líffræðingur hjá Laxfiskum, var fenginn til að fylgjast með áhrifum þess að Árbæjarlónið hafi verið tæmt varanlega eftir að rafmagnsvinnslu í Elliðaánum var hætt. Er sú ráðstöfun afar umdeild og liggja fyrir kærur frá þeim sem vilja að lónið verði látið halda sér.

Fram kemur í skýrslu Jóhannesar að þrátt fyrir almennt slaka laxagengd hér á landi síðasta sumar hafi fiskigengd í Elliðaárnar verið ágæt.

Hrygning sé nú gerleg í farvegi Árbæjarkvíslar á fyrrverandi áhrifasvæði Árbæjarlóns því frumforsendur hrygningarinnar hvað varðar straumlag, dýpi og botngerð séu fyrir hendi, öfugt við þegar Árbæjarlónið var til staðar. Botngerð svæðisins batni hröðum skrefum eftir að set hafi hætt að hlaðast þar upp.

Getur slegið eigið met

Í einni af rannsóknarferðum Jóhannesar um Elliðaárnar fangaði hann í byrjun ágúst í fyrra áðurnefnda hrygnu til merkingar.

„Skemmst er frá því að segja að legustaðirnir við Árbæjarstíflu í hylnum neðan stíflunnar og í lænuhylnum strax ofan hennar, voru hennar helsta athvarf í ágúst, september og október. Þegar kom fram í nóvember gekk hún upp af því svæði til hrygningar ofar í Árbæjarkvísl án þess þó að ganga upp úr Árbæjarkvísl og skilaði sér síðan aftur niður á vöktuðu legustaðina við stífluna í desember,“ segir í skýrslu Jóhannesar sem heldur rannsóknum sínum í Elliðaánum áfram og bíður þess nú hvort hrygnan slái eigið met næsta haust.