Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata, áttust við í Fréttavaktinni í kvöld. Þar ræddu þeir málefni hælisleitenda og þær brottvísanir sem fóru fram í síðustu viku þegar 15 hælisleitendur voru fluttir úr landi.

Brottvísanir hælisleitenda hafa verið mikið í umræðunni en til stóð að flytja 28 manns frá Íslandi í aðgerðunum. 13 aðilar fundust ekki í aðgerðum lögreglu en ekki hefur verið útilokað að þeir aðilar verði sendir burt þegar þeir finnast.

Um það hvort aðgerðirnar sem framkvæmdar voru hafi verið harkalega sagði Ásmundur handtökur ekki vera úrræði sem neinum langaði að nota.

„Ég held að það sé ný reyndar aldrei góður bragur af handtökum. Ég held einnig að þetta séu engin skemmtiverkefni fyrir þá sem þurfa að standa í því,“ sagði Ásmundur en hann gat ekki lagt mat á það hvort aðgerðirnar hefðu verið of harkalegar.

„Ég bara átta mig ekki á því, enda var ég ekki á staðnum. Mér finnst fréttaflutningur af þessu máli orðinn ótrúlega mikill. Hann er mjög ýktur,“ sagði Ásmundur en hann ítrekaði að með þessum aðgerðum væri verið að fara að lögum landsins.

Lögin í landinu

Ásmundur telur að með því að framfylgja brottvísunum sé verið að fara að þeim lögum sem sett voru á Íslandi árið 2016 en þá tóku nú útlendingalög gildi.

„Það spurning hvort við viljum að það sé farið að þeim lögum sem gilda í landinu í þessu máli eins og öllum öðrum,“ sagði Ásmundur og vitnaði til nýju útlendingalaganna.

„Ég vek athygli á því að árið 2016 voru sett hérna ný lög um útlendinga og útlendingamál, sem tveir þingmenn voru á móti en allir hinir með og það er bara verið að vinna eftir þeim lögum og fólkið sem mótmælir þessu mest það samþykkti þessi lög,“ sagði Ásmundur.

Andrés telur þó að með þessu sé verið að hundsa þær ástæður sem fólk hefur fyrir því að koma hingað til lands. Hann sagði aðgerðirnar einnig hafa einkennst af mikilli hörku.

„Þetta var mjög harkalegt og mjög stór hópur líka og kannski fyrstu brottvísanir sem komast í fréttir síðan hlé var gert á brottvísunum á meðan Covid var. Það rifjast upp fyrir fólki hvernig þetta er þegar á reynir,“ sagði Andrés.

„En það sem gerir þetta sérstaklega slæmt er hvaða fólk var verið að senda úr landi. Þarna er fólk að flýja aðstæðurnar í verndarkerfinu á Grikklandi sem er algerlega ólíðandi. Það kemur hingað og sækir um vernd ekki bara frá stríðinu í Sýrlandi heldur líka frá kerfinu sem er að bregðast því á Grikklandi,“ sagði Andrés Ingi.

„Það kemur til Íslands og við höfum val um að taka þeirra mál til efnismeðferðar og við höfum meira að segja dómafordæmi frá því í síðasta mánuði um það að fólk í sömu stöðu og þau eigi rétt á efnismeðferð. Megnið af þessu fólki er með mál fyrir dómstólum þar sem aðalmeðferð átti að fara fram eftir tíu dag,“ sagði Andrés Ingi en aldrei hafi komið til þeirrar efnismeðferðar þar sem fólkið hefði verið flutt af landi brott.

„Þá hefði komið í ljós hvort þau ættu rétt á því að vera hérna. En það er verið að sparka þeim úr landi til þess að koma í veg fyrir að það komi í ljós,“ sagði hann.

Aðstæður í Grikklandi slæmar

Talið er að margir af þeim flóttamönnum sem sendir hafa verið til Grikklands endi á götunni en Ásmundur telur að sem aðili í Evrópusambandinu hafi Grikklanbd skildum að gegna sem hann treystir landinu til að framfylgja.

„Ég tel mjög mikilvægt að land innan evrópska efnahagssvæðisins og í Evrópusambandinu eigi að að standast þessar kröfur sem gerðar eru til þeirra sem taka á móti hælisleitendum og flóttafólki,“ sagði Ásmundur.

„Ég trúi því að það sé farið að þeim reglum. Ég vil að það sé líka gert á Íslandi. Ég held að það sé misbrestur á því þar sem það hefur komið svo mikið af fólki að við höfum ekki boðlegt húsnæði til að taka á móti því,“ sagði Ásmundur sem telur að ekki sé nægilegt húsnæði á Íslandi til að taka móti þeim fjölda sem hingað kemur.

Andrés Ingi sagði að augljóst væri hvar fólk sem sent væri til Grikklands myndi enda.

„Á götunni, við vitum það, við höfum séð myndir frá þessu fólki. Við eigum skýrslu eftir skýrslu frá Rauða Krossinum og Unicef og öllum þessum stofnunum sem eru á staðnum að sinna þessu fólki sem segja svart á hvítu að þau fá ekki húsnæði, þau fá ekki menntun og þau fá ekki heilbrigðisþjónustu,“ sagði Andrés Ingi

Aðstæður á Íslandi

Ásmundur var þá spurður hvort efla þyrfti þá innviði sem þyrftu að vera til staðar til þess að taka á móti flóttafólki.

„Við þurfum að athuga hvaða fjármagn við höfum í það. Við erum að setja tíu milljarða á þessu ári í þennan málaflokk sem við settum í 480 milljónir árið 2013. Svo við verðum að meta það. En ég minni á okkur á það að fyrir nokkrum misserum síðan þá var Kumbaravogi lokað vegna þess að við gátum ekki hýst þar eldri borgara. En nú á að fara að fylla hann af hælisleitendum. Hvaða greiða erum við að gera fólki að fara með það í heilsuspillandi húsnæði á Íslandi. Mér finnst það óboðlegt,“ sagði Ásmundur.

Andrés Ingi taldi þetta þó gott dæmi um þá orðræðu sem viðhöfð er í málum hælisleitenda.

„Hér er Ásmundur með gott sýnidæmi um þá orðræðu sem kemur frá Sjálfstæðisflokknum,“ sagði Andrés Ingi.

„Að blása upp einhvern ímyndaðan vanda því nú eru að koma fleiri flóttamenn til Íslands en nokkru sinni áður. Málið er að það er stríð í Úkraínu. Það er ákvörðun ríkisstjórnarinnar að taka við því fólki og fólki frá Venesúela, opan dyrnar fyrir þeim hópum og sjálfsagt mál. Það er áttatíu prósent af þeim sem koma hingað til lands. Þá standa eftir sjö hundruð manns sem koma til landsins frá öðrum löndum,“ sagði Andrés.

Þessu tók Ásmundur illa og talaði um að stjórnarandstaðan væri að loka augunum fyrir vandanum. „Skólakerfið er sprungið, félagskerfið er sprungið, talaðu bara við bæjarstjórana hérna í nágrannabyggðunum. Þetta er allt saman sprungið. Þið litlu börnin þið lokið bara augunum,“ sagði Ásmundur.

Bara brúna fólkið sent burt

Andrés Ingi sagði að það væri ákvörðun stjórnvalda að taka á móti fólki í stórum stíl vegna stríðsins í Úkraínu og svo vegna aðstæðna í Venesúela. Hann sagði þó að taka þyrfti tillit til annara hópa eins og þeirra sem leita hingað vegna stríðsins í Sýrlandi.

Það eru hérna sjö hundruð manns fyrir utan fólkið frá Venesúela og Úkraínu sem koma til landsins. Þessi tala er ekki stór tala í samhengi. 2016 tókum við við tólfundruð í sömu aðstæðum frá sömu löndum. Það sem Ásmundur er að segja í raun er að við þurfum að sigta úr þessum hópi, þá er hann að segja að fólkið sem er að flýja frá Úkraínu megi vera vegna þess að stjórnin er búin að ákveða það. En brúna fólkið sem er flýja stríð í Sýrlandi því megi sparka út,“ sagði Andrés Ingi

Ásmundur svaraði því þannig að þegar komið væri of mikið af fólki þyrfti einfaldlega að segja stopp.

„Og þá verðum við að byrja að henda út brúna fólkinu? Það heitir bara eitt og það er rasismi ríkisstjórnarinnar,“ sagði Andrés Ingi sem taldi það til marks um að verið væri að velja inn fólk sem fengi hér vernd vegna landfræðilegrar nálægðar eða húðlitar.