Iðunn Embla Njálsdóttir sló fimm ára gamalt Íslandsmet í hreystigreip á þriðjudaginn, þegar hún keppti fyrir hönd Réttarholtsskóla í Skólahreysti. Í hreystigreip hanga keppendur á slá eins lengi og þeir geta. Iðunn hékk í 15 mínútur og tvær sekúndur og sló þannig met Katarínu Eikar Sigurjónsdóttur sem hékk tveimur mínútum og 22 sekúndum styttra en Iðunn.

„Mér leið bara mjög vel og var rosalega glöð,“ segir Iðunn spurð um tilfinninguna þegar hún sló metið. „Þetta kom mér líka rosa mikið á óvart því að þegar ég var að æfa fyrir keppnina þá gat ég alltaf hangið í svona eina mínútu,“ bætir hún við.

Hefði getað hangið lengur

Iðunn segist einu sinni hafa náð að hanga í um fjórar mínútur en aldrei lengur þangað til í keppninni sjálfri. „Meðan á þessu stóð þá fann ég að ég var orðin þreytt í handleggjunum en ef ég á að segja alveg satt þá hefði ég alveg getað hangið aðeins lengur, nema bara andlega var ég ekki að nenna því,“ segir hún.

Aðspurð segist Iðunn ekki hafa hugsað um neitt sérstakt á meðan á keppninni stóð, það rúma korter sem hún hékk hafi liðið frekar hratt. „Mér fannst þetta bara frekar vandræðalegt, ég vissi að allir gætu verið að horfa á mig af því að þetta var í beinni útsendingu,“ útskýrir hún, en Skólahreysti er sýnt beint á RÚV.

Iðunn hefur stundað fimleika frá því að hún var lítil og er mikil íþróttakona. Hún segir það þó ekki hafa verið draum sinn að keppa í Skólahreysti en hún hafi þó haft mjög gaman af því. „Þegar ég var lítil þá fannst mér mjög skemmtilegt að horfa á þetta, en ég var ekkert að pæla í að taka þátt sjálf fyrr en ég var beðin um það,“ segir hún.

Ekki leið þó metið væri slegið

Iðunn fékk ekki að eiga Íslandsmetið í hreystigreip lengi, því í gær sló Erlín Katla Hansdóttir úr Flóaskóla metið þegar hún hékk í 16 mínútur og 58 sekúndur. Iðunn segir það hafa komið sér á óvart þegar Erlín sló metið, en að hún hafi þó ekki orðið leið. „Ég varð eiginlega bara hissa en ég kem bara aftur á næsta ári,“ segir hún ákveðin.

Tímann fram að mótinu á næsta ári ætlar Iðunn að nýta til að vinna í andlegu hliðinni, svo henni leiðist ekki þegar hún hangir í næstu keppni. „Já ég þarf bara að finna leið til að gera það,“ segir Iðunn.