Skólpi verður sleppt í sjó við hreinsistöð fráveitu við Ánanaust í Reykjavík vegna viðgerðar á stöðinni frá klukkan átta í fyrramálið, miðvikudaginn 2. desember, til miðnættis.

Búast má við aukinni gerlamengun í sjónum á meðan á viðgerðinni stendur. Mælast Veitur til þess að fólk sé ekki í eða við sjóinn í nálægð við hreinsistöðina á meðan þetta ástand varir. Skilti verða sett upp við stöðina og nálæga fjöru sem varar fólk við mögulegri gerlamengun.

Fram kemur í tilkynningu frá Veitum að þrátt fyrir að megnið af skólpinu verði síað áður en því er veitt í sjó verður fylgst sérstaklega með fjörum í kringum hreinsistöðina í kjölfar viðgerðarinnar. Berist rusl í fjörur verði þær hreinsaðar af verktökum á vegum Veitna.

Ekki hægt að fara í viðgerðir án þess að veita skólpi í sjó

Íbúar á höfuðborgarsvæðinu eru áfram minntir á að ekkert nema líkamlegur úrgangur og klósettpappír eigi að fara í klósettin.

Að sögn Veitna er fráveitukerfið sífellukerfi og rennslið í það stöðvist aldrei. Kerfið sé því hannað þannig að viss viðhaldsverk og viðgerðir verða ekki unnin nema að veita skólpinu í sjó á meðan.

„Margir þættir hafa áhrif á mengunina sem fylgir skólpi sem fer í sjó. Þar skiptir auðvitað magnið máli, hversu lengi það rennur í sjó, hversu blandað skólpið er hitaveitu- og yfirborðsvatni, veður og straumar í sjónum. Saurgerlar fjölga sér illa eða ekki í vatni og sólarljós brýtur þá niður. Gera má ráð fyrir að gerlamengun í sjónum og í grjótgörðunum í kringum stöðina vari ekki lengi eða í mesta lagi í hálfan sólarhring eftir að viðgerð lýkur,“ segir í tilkynningu.

Að lokum kemur fram að send hafi verið tilkynning um viðgerðina til Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur sem sjái um vöktun á mengun í strandsjó.