Jón Magnús Kristjáns­son, læknir og fyrr­verandi yfir­læknir á bráða­mót­töku Land­spítalans, segist sleginn að ekkert hafi breyst á bráða­mót­tökunni frá því að hann hætti þar fyrir sex mánuðum, þrátt fyrir mikla um­ræðu í sam­fé­laginu undanfarið og sérstaklega í aðdraganda kosninganna.

Hann deilir því á Face­book að hann sé ný­hafinn að taka þar vaktir aftur í hluta­starfi og hafi um helgina tekið eftir því að ekkert hafi breyst þrátt fyrir „endur­teknar skýrslur og neyðar­óp starfs­manna“.

„Enn eru 20-30 inn­lagðir sjúk­linga á hverjum tíma á bráða­mót­tökunni sem fá ekki pláss á legu­deildum,“ segir Jón Magnús.

Hann segir að þessi staða leiði til þess, í fyrsta lagi, að læknar þurfi að taka skýrslur á gangi og það geti leitt til þess að fólk gefi ekki upp allar upp­lýsingar sem nauð­syn­legar eru, vegna skorts á næði. Í öðru lagi leiðir þetta til þess að sjúk­lingar eru seint færðir á legu­deildir til að fá sér­hæfða þjónustu.

„Að meðal­tali tekur tæpan sólar­hring áður en þú kemst á legu­deild og á meðan ertu annað hvort í 8-9 manna fjöl­byli eða jafn­vel í glugga­lausu her­bergi. Vissu­lega eru undan­tekningar á þessu ef þú ert með hjarta­á­fall eða þarft að leggjast inn á gjör­gæslu­deild en jafn­vel þó þú sért með botn­langa­bólgu, gall­blöðru­bólgu eða þarf að­gerð vegna bein­brots kemstu ekki á þína legu­deild og með­ferðin tefst. Verst lendir þú þó í því ef þú ert aldraður eða þarft að vera í ein­angrun. Við vitum að þetta lengir legu­tíma, eykur við veikindin og sums staðar er­lendis hefur þetta leitt til aukinnar dánar­tíðni sjúk­linga,“ segir Jón Magnús.

Í þriðja lagi segir hann að það séu tölu­verðar líkur á því að fólk fái ekki lyf á réttum tíma, að það þurfi að bíða eftir verkja­lyfjum og að fólk geti misst þvag eða hægðir í rúmið því það fær ekki að­stoð við að komast á salernið.

Jón Magnús segir að þrátt fyrir lof­orð stjórn­mála­manna í að­draganda kosninga sé ekkert að gerast.

„Er okkur sem þjóð­fé­lag orðið alveg sama um þá þurfa þjónustu bráða­mót­tökunnar svo lengi sem við lendum ekki í því sjálf?“ spyr hann og segir að lík­lega sé fólk búið að sætta sig við þetta á­stand og ætli að bíða eftir því að nýr með­ferðar­kjarni taki við, eftir fimm til sex ár.