Í Heyrnleysingjaskólanum töluðu kennarar hvorki né kenndu táknmál enda táknmálskennsla bönnuð í skólum hér á landi fram til ársins 1980. Fram að því var hér, eins og víða annars staðar í heiminum, farið eftir svokallaðri raddmálsstefnu sem gekk út á að kenna heyrnleysingjum að tala og lesa af vörum. Sú stefna var við lýði í meira en öld.
Eldri nemendur Heyrnleysingjaskólans höfðu þó lært táknmál sem færst hafði kynslóða á milli og það sama var uppi á teningnum þegar Júlía og Addi bróðir hennar skráðust í skólann snemma á áttunda áratugnum.
„Eldri nemendurnir spjölluðu saman í frímínútum og við sem lærðum af þeim eigum þeim mikið að þakka. Inni í kennslustundum var táknmál bannað og kennarinn talaði bara með rödd sinni – og slegið var á hendur barna ef þau lyftu þeim til að tala táknmál og þau skömmuð,“ segir Júlía.