Ólafur Ragnar Ólafs­son hefur nú sett af stað söfnun fyrir föður sinn sem missti hús sitt og al­eiguna í bruna í fyrri­nótt í Vík í Mýr­dal.

Faðir hans, Ólafur Erlendsson, er bú­settur á Bakka­braut í Vík í Mýr­dal. Hann vaknaði við reyk um miðja nótt og náði rétt svo að bjarga sjálfum sér áður en eldur kviknaði inni í húsinu.

Ólafur Ragnar segir mikið mildi að faðir hans hafi vaknað og að hann vilji gera allt sem í valdi hans stendur svo að pabbi hans geti átt sér heimili aftur á Vík, þar sem honum líður best.

„Það er sárt og leiðin­legt að sjá þetta. Þetta eru mínar æsku­slóðir en svo á seinna hafa krakkarnir elskað að koma til þarna til afa síns,“ segir Ólafur Ragnar.

Hann segir að trygginga­maður hafi lokið skoðun á húsinu og að það sé mikið skemmt að innan, en að utan sé það að mestu í lagi, en vegna skemmda að innan þurfi að rífa mikið út úr því.

„Það er allt í vatni og reyk og mikið skemmt húsið,“ segir Ólafur Ragnar.

Hann segir að hann hafi fengið símtal frá föður sínum snemma morguns um brunann.

„Hann vaknaði um nóttina og fann sviða í nefi og leit upp og þá var allt her­bergið hans í reyk og kviknað í fyrir ofan hann í fata­skápnum,“ segir Ólafur Ragnar og bætir við:

„Hann fór út en fattaði að hann var bara á nær­buxunum og fór þá aftur inn og sótti sér föt. Þegar hann var kominn aftur út fattaði hann að hann gleymdi símanum og fór þá aftur inn að sækja hann, allt al­elda inni, en hann komst aftur út.“

Feðgarnir og kona Ólafs Ragnars, Elín Ósk Ólafsdóttir.
Mynd/Aðsend

Hann segir að söfnunin eigi að styðja við endur­byggingu á hús­næðinu svo að faðir hans geti komið sér aftur fyrir þar. Hann segir að faðir hans hafi verið tryggður en að bruna­bóta­matið hrekki lík­lega ekki fyrir al­eigu föður hans.

„Þetta er staðurinn hans og hann vill bara vera þarna. Við ætlum að hendast í endur­byggingu á þessu. Það þarf að hreinsa innan úr því. Það er allt í vatni og setja allt nýtt inn.“

„Þetta er mikið sjokk og á­fall fyrir hann þar sem allt er ó­nýtt vegna elds, reyks og vatns. Margar góðar minningar voru í þessu húsi með afa­börnum. Nú í dag stendur hann alls­laus og allt farið og langar mig að henda í söfnun fyrir Pabba og hjálpa honum að komast aftur í Sveitina þar sem honum liður best,“ segir Ólafur í færslu sem hann deildi á Face­book í gær.

Feðgarnir við hús Ólafs sem brann í fyrrinótt, ásamt syni Ólafs Ragnars Daníel Mána.
Mynd/Aðsend

Hægt er að styrkja söfnunina með því að leggja inn á söfnunar­reikning sem Ólafur Ragnar stofnaði en upp­lýsingar um reiknings­númer eru í færslunni hér að neðan sem er deilt með hans sam­þykki.

Einangrað með grasi

Ívar Páll Bjart­mars­son, slökkvi­liðs­stjóri á Vík, segir að greið­lega hafi gengið að slökkva eldinn þegar þeir komu á vett­vang.

Hann segir að ljóst sé að það kviknaði í út frá raf­magni og að lög­regla fari með rann­sókn málsins.

„Það var þó­nokkur eldur í húsinu þegar við komum. Maðurinn var kominn út og eldurinn kominn upp í milli­loft. Húsið var ein­angrað með gömlu heyi en það gekk vel að slökkva í því. Húsið er illa farið og eldurinn kominn upp þegar við komum og það logaði mest í því þar,“ segir Ívar Páll.

Hann segir að mikið mildi sé að maðurinn hafi komist út af sjálfs­dáðum.

Ívar Páll segir að húsið hafi skemmst tals­vert á meðan þeir voru að slökkva í eldinum því að þeir hafi þurft að rífa mikið úr veggjum.

„Það var glóð í veggjunum þannig það þurfti að rífa mikið úr veggjunum því það var ein­angrað með grasi,“ en það tíðkaðist á fyrri árum að nýta það sem til var, eins og hey, til að ein­angra hús. Hann telur að húsið hafi verið byggt í kringum 1927.

„Það er bölvað að eiga við heyið, því það er enda­laus glóð í því,“ segir Ívar Páll

Ólafur Ragnar segir að strákarnir sínir, Daníel Máni og Logi, hafi alltaf haft gaman af því að heimsækja afa sinn í sveitinni.
Mynd/Aðsend