„Ég ætla að gefa kost á mér í stöðu ritarans,“ segir Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi samgönguráðherra, í samtali við Fréttablaðið. „Ég er spenntur fyrir því að takast á við þetta mikilvæga verkefni fyrir hönd fólksins.“ Jón telur reynslu sína og þekkingu í ólíku málaflokkum verða gott veganesti í starfið.

„Ritarastarfið snýst um innra starf flokksins og það er af nægu að taka þar í seinni hálfleik í þessu ríkisstjórnarsamstarfi.“

Vika í kosninguna

Staða ritara í forystusveit Sjálfstæðisflokksins er laus eftir að Ás­laug Arna Sigur­björns­dóttir tók við embætti dómsmálaráðherra í gær. Samkvæmt reglum flokksins getur ritari ekki setið sem ráðherra. Verður því kosið um nýjan ritara á flokksráðsfundi Sjálfstæðisflokksins sem hefur verið boðaður þann 14. september næstkomandi.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins eru margir um hituna. Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðismanna í borginni og Hildur Björnsdóttir hafa verið nefnd sem eftirmenn Áslaugar Örnu í ritarastöðuna. Eyþór hefur ekki útilokað að hann muni gefa kost á sér.

Vala Pálsdóttir hefur enn ekki ákveðið hvort hún taki slaginn í ár.

Ýmsir óákveðnir ennþá

Vala Pálsdóttir, formaður Landssambands Sjálfstæðiskvenna, hefur einnig verið nefnd sem arftaki Áslaugar Örnu en hún vildi lítið tjá sig um mögulegt framboð í samtali við blaðamann. Hún sagði þó að málið væri í skoðun hjá henni.

Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings, hefur einnig verið nefndur í þessu sambandi. Hann kveðst búinn að fá þónokkrar áskoranir eftir að fregnir fóru að berast um að hann gæti gefið kost á sér. „Það er ánægjulegt þegar fólk horfir til manns og skorar á mann að taka að sér viðamikil embætti en ég hef ekki tekið neina ákvörðun ennþá um hvað ég ætla að gera,” segir Kristján og bætir við að hann sé tiltölulega nýbúinn að ganga til liðs við flokkinn, eða fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar. Kristján segir að þrátt fyrir stuttan tíma innan flokksins sé ánægður með það starf sem hann hefur unnið fyrir norðan. Koma muni í ljós seinna í vikunni hvort hann færi út kvíarnar.

Borgarfulltrúarnir Eyþór Arnalds og Hildur Björnsdóttir hafa verið orðuð við hlutverkið ásamt Elliða Vignissyni bæjarstjóra í Ölfusi.
Fréttablaðið/Samsett mynd

Áslaug hvött í ritarann

Annar nefndur eftirmaður Áslaugar Örnu er nafna hennar Áslaug Hulda Jónsdóttir, forseti bæjarstjórnar Garðabæjar. Hún hefur að eigin sögn verið hvött til að sækjast eftir stöðu ritara og er þakklát fyrir það. „Ég er í forystu í sterkasta vígi Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ, svo að sjálfsögðu velti ég þessu fyrir mér,“ segir Áslaug í samtali við Fréttablaðið en hún er ekki tilbúin að staðfesta framboð að svo stöddu.

„Mér finnst skipta mjög miklu máli að í forystu sjálfstæðisflokksins sé einhver á sveitarstjórnarstigi,“ segir Áslaug og bætir við að rödd sveitastjórnar hafi ekki verið há á síðustu misserum.

Áslaug telur sig tilbúna til að sinna stöðunni gæfist tækifæri til. „Ég hef verið í Sjálfstæðisflokknum síðan ég var 16 ára og tekið virkan þátt alla daga síðan.“ Auk þess sem Áslaug hefur verið kosningarstjóri fjórum sinnum hefur hún gegnt hinum ýmsu stöðum innan flokksins í gegnum árin