Lögreglan á Suðurnesjum leitar þessa stundina að eiganda hamsturs sem lagði, þvert á eigin vilja, upp í langför í gær.

Hamstur þessi hafði nefnilega lent í slag við kött og fór svo að hann þurfti að lúta í lægra haldi. Þótti ketti greinilega ekki nóg að vinna slaginn heldur bar hann hamsturinn heim til sín í kjaftinum og sýndi eiganda sínum hvers megnugur hann var.

Viðbrögð eigandans voru á aðra leið en kötturinn hafði ráðgert en sá fyrrnefndi fór í kjölfarið með hamsturinn á lögreglustöðina í Reykjanesbæ.

„Við leitum því nú af eiganda slagsmálahamstursins sem við höfum gefið nafnið Hamstur Macgregor í kerfum okkar. Að sögn lögreglumanna á vakt þá er hamsturinn talsvert æstur eftir átökin og heimtar re-match við kattarófétið (eins og hann orðar það),“ segir í færslu lögreglunnar á Facebook.