Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fékk tilkynningu um líkamsárás á veitingastað í Grafarvogi rétt eftir hálf tólf í gærkvöldi. Þar hafði dyravörður ætlað að vísa ölvuðum manni út úr húsi en það endaði í slagsmálum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu.

Skömmu eftir sex í gær brugðust lögregla og slökkvilið við tilkynningu um eld í rusli við hús á Grensásvegi. Það gekk vel að slökkva eldinn, en málið er í rannsókn.

Um miðnætti var bifreið stöðvuð í Bústaðahverfi, en ökumaðurinn er grunaður um akstur undir áhrifum og vörslu fíkniefna.

Rétt eftir tíu var tilkynnt um bílveltu í Árbæ. Ökumaður hafði misst stjórn á bíl sínum og keyrt á ljósastaur og við það valt bíllinn á hliðina. Ökumaðurinn var fluttur á bráðadeild en virðist hafa sloppið vel.

Stuttu fyrir eitt í nótt var tilkynnt um umferðaróhapp á Þingvallavegi í Mosfellsbæ. Bíl hafði verið ekið á ljósastaur en enginn meiddist. Orkuveitu var tilkynnt um skemmdirnar á ljósastaurnum.