Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu brást við tilkynningu um slagsmál og læti í heimahúsi rétt fyrir sjö í gærkvöldi. Tveir karlmenn og ein kona voru í átökum og höfðu þau öll minniháttar áverka. Einn var handtekinn og vistaður í fangageymslu. Málið er í rannsókn. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Alls voru 83 mál bókuð milli fimm í gær og fimm í nótt.

Um svipað leyti bárust nokkrar tilkynningar um ökumann sem var hugsanlega ölvaður þar sem hann hafði rásandi aksturslag og ók upp á kanta. Lögreglan stöðvaði ökumanninn stuttu síðar og hann reyndist ofurölvi, svo hann var vistaður í fangageymslu.

Tilkynnt var um umferðarslys á Meðalfellsvegi skömmu fyrir sjö í gærkvöldi. Bifreið hafði hafnað utan vegar í skurði. Ökumaðurinn er grunaður um ölvun við akstur. Hann var fluttur á bráðamóttöku með minniháttar áverka.

Tveir aðrir ökumenn voru stöðvaðir vegna gruns um akstur undir áhrifum, en þeir voru látnir lausir eftir sýnatöku.

Rétt eftir átta var tilkynnt um þjófnað úr bifreið í Hlíðahverfi. Ýmsum smámunum hafði verið stolið.

Um tvö í nótt var tilkynnt um slys utandyra í Breiðholti, en ölvaður maður um sjötugt hafði dottið á höfuðið. Hann var fluttur á slysadeild með sjúkrabíl.