Bandaríski tónlistarmaðurinn Kanye West tilkynnir að hann verði forsetaframbjóðandi nýs flokks, Afmæliðsboðs-hreyfingarinnar. Hann hafi þó viljað vera frambjóðandi Rebúklíkanaflokksins.

Aðspurður um ákvörðun hans um að nefna nýja flokkinn Afmælisboðið, segir Kanye: „Vegna þess að þegar ég sigra, þá eiga allir afmæli.“

Tímaritið Forbes ræddi við Kanye í fjóra tíma símleiðis um framboð hans. Þar greindi frambjóðandinn frá því að slagorð framboðs síns væri einfaldlega „JÁ!“ og að hann væri búinn að velja varaforsetaefni sitt, prest frá Wyoming að nafni Michelle Tidball.

Kanye West á fundi með forsetanum árið 2018.

Telur sig ekki sundra atkvæðum

Frambjóðendur utan Repúblikanaflokksins og Demókrataflokksins njóta sjaldan mikils fylgis en geta þó haft mikil áhrif á niðurstöðu kosninganna. Kanye segist hafa boðið sig fram til þess að sigra í kosningunum. „Ég geri þetta til þess að vinna,“ sagði hann.

Fjölmargir hafa lýst yfir áhyggjum að framboð Kanye West muni sundra atkvæðum svartra kjósenda og þannig auka líkur á sigri Donalds Trump. Kanye segir þetta fáránlegt.

„Þetta er ákveðið kynþáttahatur að segja að allt svart fólk þurfi að vera Demókratar og að gera ráð fyrir því að ég muni sundra atkvæðunum.“

Einnig tók hann fram að hann hefði aldrei kosið áður og væri nú í fyrsta sinn að skrá sig á kjörskrá.

Tekur ofan derhúfuna

Kanye tók fram í viðtalinu að hann styðji ekki lengur Donald Trump og að með þessu viðtali væri hann að „taka ofan rauðu derhúfuna.“

Hann mætti alveg óvænt á fund með forsetanum árið 2018 og var það áreiðanlega einn undarlegasti fundur sem hefur verið haldinn í Hvíta húsinu.

Þar hélt Kanye tíu mínútna einræðu fyrir framan blaðamenn þar sem hann fór um víðan völl um ýmis samfélagsleg málefni, þrælahald, andlega heilsu og aðdáun hans á Trump.