„Almenningur hefur staðið sig vel þó að það séu einhverjar undantekningar á því,“ segir Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir um sóttvarnahegðun Íslendinga yfir hátíðirnar. Aðeins tveir greindust með Covid-19 í gær.
„Tölur dagsins eru ekki alveg að marka,“ segir Þórólfur og bendir á að nánast engin sýni hafi verið tekin í gær. „En fyrir jólin og á Þorláksmessu og Aðfangadag voru ekki mörg tilfelli sem greindust.“ Það sé mjög jákvætt.
„Það verður að halda því til haga að fólk er að standa sig alveg gríðarlega vel og það ber að þakka og hrósa fyrir það.“
Leiður yfir sóttvarnabrotum
Ekki eiga þó allir hrós skilið að mati Þórólfs ef marka má fréttir um sóttvarnabrot á aðfangadag. Greint var frá því á aðfangadag að á annað hundrað manns hafi safnast saman í kirkju og að á fimmta tug hafi fagnað í Ásmundarsal á Þorláksmessu.
Líkt og frægt er orðið var einn gesta í fjölmennum fögnuði í Ásmundarsal fjármálaráðherra sjálfur, Bjarni Benediktsson. „Eins og málið kemur fyrir virðist þetta hafa verið brot á sóttvarnareglum,“ segir Þórólfur.
„Auðvitað er það slæmt þegar forráðamenn þjóðarinnar passa sig ekki á þeim reglum sem eru í gildi,“ ítrekar sóttvarnalæknir. „Það óþægilegt og ég er leiður yfir því.“

Vonast til að fólk passi sig
Þórólfur kveðst ekki vita hvort áhrif slíkra gjörða muni verða til þess að fólk virði sóttvarnareglur að vettugi. „Ég held að það gæti alveg eins virkað þannig að það skerpi á mikilvægi þessara reglna og mikilvægi þess að fylgja þeim,“ segir hann hugsi.
„Ég vona allavega að það virki þannig en ekki til þess að fólk telji að það sé í lagi að brjóta þessar reglur þó að einhver annað geri það.“ Umræðan í kringum sóttvarnabrot ráðherra hafi þó virst vera á þá leið að fólk sé því ekki fylgjandi því að brjóta sóttvarnareglur. „Ég vona að það veðri til þess að efla fólk til dáða.“
Þórólfur segir ljóst að hátíðirnar séu órólegur tími í samfélaginu þar sem fólk safnist saman af allskonar tilefni. „Það er það sem maður er alltaf smeykur við að gæti skilað sér í aukningu á þessum faraldri.“
Hvort það gerist eða ekki er erfitt að spá fyrir. „En við verðum að halda áfram að hvetja fólk til að gæta að sér og passa sig fram yfir áramótin.“
Blóm í eggi
Sýnatökustaðir opnuðu að nýju í dag og getur fólk því aftur farið í skimun. „Ástandið mun skýrast töluvert þegar tölur koma frá því.“ Þórólfur vonast til að ráðleggingar sóttvarnayfirvalda skili sér í því að smit verði í lágmarki.
Sjálfur hefur hann haft hægt um sig yfir jólin. „Ég hef verið hér eins og blóm í eggi í faðmi fjölskyldunnar.“ Hann hyggst hafa það rólegt í dag og sendir bestu hátíðarkveðjur til landsmanna allra.