„Al­menningur hefur staðið sig vel þó að það séu ein­hverjar undan­tekningar á því,“ segir Þór­ólfur Guðna­son, sótt­varna­læknir um sótt­varna­hegðun Ís­lendinga yfir há­tíðirnar. Að­eins tveir greindust með Co­vid-19 í gær.

„Tölur dagsins eru ekki alveg að marka,“ segir Þór­ólfur og bendir á að nánast engin sýni hafi verið tekin í gær. „En fyrir jólin og á Þor­láks­messu og Að­fanga­dag voru ekki mörg til­felli sem greindust.“ Það sé mjög já­kvætt.

„Það verður að halda því til haga að fólk er að standa sig alveg gríðar­lega vel og það ber að þakka og hrósa fyrir það.“

Leiður yfir sótt­varna­brotum

Ekki eiga þó allir hrós skilið að mati Þór­ólfs ef marka má fréttir um sótt­varna­brot á að­fanga­dag. Greint var frá því á að­fanga­dag að á annað hundrað manns hafi safnast saman í kirkju og að á fimmta tug hafi fagnað í Ás­mundar­sal á Þor­láks­messu.

Líkt og frægt er orðið var einn gesta í fjöl­mennum fögnuði í Ás­mundar­sal fjár­mála­ráð­herra sjálfur, Bjarni Bene­dikts­son. „Eins og málið kemur fyrir virðist þetta hafa verið brot á sótt­varna­reglum,“ segir Þór­ólfur.

„Auð­vitað er það slæmt þegar for­ráða­menn þjóðarinnar passa sig ekki á þeim reglum sem eru í gildi,“ í­trekar sótt­varna­læknir. „Það ó­þægi­legt og ég er leiður yfir því.“

Þórólfur hefur notið jólanna í faðmi fjölskyldunnar.

Vonast til að fólk passi sig

Þór­ólfur kveðst ekki vita hvort á­hrif slíkra gjörða muni verða til þess að fólk virði sótt­varna­reglur að vettugi. „Ég held að það gæti alveg eins virkað þannig að það skerpi á mikil­vægi þessara reglna og mikil­vægi þess að fylgja þeim,“ segir hann hugsi.

„Ég vona alla­vega að það virki þannig en ekki til þess að fólk telji að það sé í lagi að brjóta þessar reglur þó að ein­hver annað geri það.“ Um­ræðan í kringum sótt­varna­brot ráð­herra hafi þó virst vera á þá leið að fólk sé því ekki fylgjandi því að brjóta sótt­varna­reglur. „Ég vona að það veðri til þess að efla fólk til dáða.“

Þór­ólfur segir ljóst að há­tíðirnar séu ó­ró­legur tími í sam­fé­laginu þar sem fólk safnist saman af alls­konar til­efni. „Það er það sem maður er alltaf smeykur við að gæti skilað sér í aukningu á þessum far­aldri.“

Hvort það gerist eða ekki er erfitt að spá fyrir. „En við verðum að halda á­fram að hvetja fólk til að gæta að sér og passa sig fram yfir ára­mótin.“

Blóm í eggi

Sýna­töku­staðir opnuðu að nýju í dag og getur fólk því aftur farið í skimun. „Á­standið mun skýrast tölu­vert þegar tölur koma frá því.“ Þór­ólfur vonast til að ráð­leggingar sótt­varna­yfir­valda skili sér í því að smit verði í lág­marki.

Sjálfur hefur hann haft hægt um sig yfir jólin. „Ég hef verið hér eins og blóm í eggi í faðmi fjöl­skyldunnar.“ Hann hyggst hafa það ró­legt í dag og sendir bestu há­tíðar­kveðjur til lands­manna allra.