Valgerður Árnadóttir, formaður Samtaka grænkera á Íslandi, segir að ef Ágústi Beinteini Árnasyni eða Gústa B., verði leyft að halda refnum Gústa Jr. sem gæludýri verði það fordæmisgefandi. Það geti orðið til þess að aðför að villtum dýrum aukist og slíkt fordæmi ætti eftir fremsta megni að forðast.

Valgerður segir ljóst að það sé lögbrot að halda villt dýr sér til skemmtunar, „en ef eftirliti er ekki sinnt og lítil eða engin viðurlög við broti þá mun þetta vera gert áfram,“ segir Valgerður í samtali við Fréttablaðið. Hún telur að beita eigi viðurlögum við brotum sem þessu.

Fréttablaðið greindi frá því í síðustu viku að verið væri að skoða mál hins landsþekkta refs og að hann væri kominn með lögmann. Sennilega fyrsti refurinn í heiminum til að fá slíkan. Mál refsins hafa verið ansi umdeild en skiptar skoðanir eru á því hvort Gústi B. eigi að afhenda Fjölskyldu- og húsdýragarðinum refinn eða halda honum.

Sjálfur sagði Gústi B. í samtali við Fréttablaðið í síðustu viku að hann vonaðist til þess að Gústi Jr. fengi að vera áfram hjá honum.

Fjölskyldan stundi það að temja yrðlinga

„Það er ljóst af fréttum að dæma að fjölskylda Ágústs Beinteins hefur frá því 2013 stundað það að temja yrðlinga og munu halda því áfram ef ekkert er að gert, svo og aðrir sem sæju sér leik á borði til að laða að sér ferðamenn,“ segir Valgerður.

Hún vísar í pistil sinn á vef Vísis í dag um aðför að villtum dýrum á Íslandi. Þar bendir hún á frétt frá árinu 2017 þar sem bóndi á afskekktum sveitabæ við Arnarfjörð ól upp refi sem gæludýr. Bóndinn er faðir Gústa B.

Gústi B. segir refinn ekki tengjast málum föður síns og bendir á að honum hafi verið bjargað frá dauða. Hann sjái ekki hryllinginn í því að bjarga einum og einum yrðlingi frá þeim örlögum og vísar til föður síns.

„Reyndar spaugilegt að hugsa til þess að MAST hafi ekki bankað upp á hjá honum fyrir þessum árum, og hjá öðrum bændum líka," segir Gústi B.

Vanti dýraathvarf fyrir villt dýr

Aðspurð hvað væri réttast að gera við refinn Gústa Jr. úr því sem komið er segir Valgerður ljóst að refurinn sé orðinn of gamall til að hægt sé að kenna honum að bjarga sér sjálfur. Hún telji réttast að Fjölskyldu- og húsdýragarðsins taki við honum.

„Það væri auðvitað best ef á Íslandi væri starfrækt dýraathvarf með betri aðstöðu fyrir villt dýr en þá sem finnst í Húsdýragarðinum og það er eitthvað sem ég tel að stjórnvöld ættu að skoða að styrkja starfsemi dýraathvarfs,“ segir Valgerður.

Húsleitarheimild en engan ref að finna

Undir lok síðustu viku mættu tveir lögreglumenn ásamt fulltrúa Matvælastofnunar, MAST, að heimili Gústa B. og Gústa Jr. með húsleitarheimild. Markmiðið var að ná refnum en þar var engan ref að finna.

„Mínir menn hafa að sjálfsögðu kært húsleitina enda er ekkert eðlilegt við það að opinberar stofnanir misnoti völd sín svona. Ég hlakka til að fá það viðurkennt að þessar stofnanir geti ekki gert allt sem þeim sýnist,“ segir Gústi B í samtali við Fréttablaðið.

Hann furðar sig jafnframt á því að MAST geri ekkert varðandi ábendingar um slæma meðferð á dýrum út um allan bæ en svo hlaupi þeir á eftir TikTok refnum. „Þetta er að verða efni í skaupið,“ segir Gústi B.

„Það verður skemmtilegt að sjá dómara slá því á fast að Gústi Jr. er í raun gæludýr. Miðað við framvindu málsins gæti þetta endað þannig, í dómsal,“ segir hann. Þangað til muni refurinn vera kyrr hjá sér.